„Dæmd skref á Dag eftir eitt skref“

Kristinn Guðmundsson.
Kristinn Guðmundsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson.

Vonsvikinn Kristinn Guðmundsson, þjálfari ÍBV, var ekki sáttur með það hvernig hans menn mættu inn í leikinn gegn Selfyssingum í kvöld en liðið tapaði með einu marki í Suðurlandsslagnum. Tapið þýðir að Selfyssingar eru nú einungis einu stigi á eftir Eyjamönnum, sem höfðu unnið fyrstu fjóra leiki sína.

 „Ég er drullusvekktur, fyrst og fremst yfir því að við skyldum ekki hafa betri tök á þessum leik sjálfir, við erum í helvítis vandræðum í þessum leik fram eftir öllu og vorum búnir að ákveða að reyna að breyta einhverju. Við vorum búnir að ákveða það áður en Elliði fékk rautt. Við vorum að reyna og sýnum rosalegan karakter að koma okkur inn í þetta og ná forystu í leiknum eftir að hafa lent sex mörkum undir. Fram að því er eitthvað sem við þurfum að skoða virkilega vel, hvað veldur þessu. Ég ætla ekki að taka neitt af Selfoss-liðinu, þeir eru flott lið og það er ekkert óeðlilegt að tapa leik á móti góðum liðum. Við þurfum að skoða það sem við getum lagað, það er fyrst og fremst það sem við getum einbeitt okkur að,“ sagði Kristinn við mbl.is.

Markvarsla og varnarleikur haldast í hendur í handbolta og í dag vörðu markverðir Eyjamanna aðeins fjögur skot.

„Við getum lagað markvörsluna og vörnina, við erum lið sem tapar saman og vinnur saman. Við munum skoða vídeó og laga það sem aflaga fer varnarlega og hjálpa markvörðunum okkar ef við teljum þá hafa átt að taka bolta í einhverjum ákveðnum stöðum. Menn hætta ekki að vera handboltamenn þó að þeir eigi einn slæman leik eða tvo leiki, eða hvernig sem það er. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða og laga, þetta er langt tímabil og það fer ekkert í dag.“

Leikurinn í kvöld var mjög hraður og það er mikið af töpuðum boltum hjá báðum liðum, en hvað er það sem fór með leikinn í kvöld?

„Við erum ólíkt síðustu leikjum ekki alveg nógu ákveðnir í aðgerðum undir lokin, það var eins og við værum smeykir, frekar en að sækja sigrana eins og í hinum leikjunum. Það er eitthvað sem við getum skoðað og lagað,“ sagði Kristinn en hélt síðan áfram.

„Það þarf ekkert að horfa fram hjá því að boltinn er tekinn af okkur í næstsíðustu sókninni, þeir dæma skref á Dag þegar hann er búinn með eitt skref. Það eru skelfileg mistök, menn eru að dæma eitthvað sem þeir kalla sjálfir toppslag, við þurfum að fara að skoða það sem við gerðum vitlaust og ég vona að þeir geri það líka. Það er ekki neinn standard að dæma skref á mann sem er búinn að taka eitt skref.“

Kristinn vill þó frekar einbeita sér að því sem hann hefur stjórn á.

„Það sjá það allir sem voru að fylgjast með þessum leik að við vorum mjög ósáttir eftir leikinn og erum mjög ósáttir. Ég ætla að eyða orkunni minni í það sem ég hef stjórn á, ég hef ekki stjórn á því hvort dómararnir dæmi skref eða ekki. Ef ég ætla að fara með það með mér inn í vikuna þá einbeiti ég mér ekkert að því sem ég á að einbeita mér að. Það er allt í lagi að það komi fram að við séum drullufúlir yfir þessu, það þarf ekkert að skoða það neitt rosalega mikið að þessi dómur sem kemur Selfyssingum í hraðaupphlaup sem þeir fá víti úr er algjör þvæla. Þeir þurfa að bera þetta eins og leikmenn sem hafa gert mistök, við erum allir manneskjur og allt það, það er ekkert meiru við það að bæta.“

Eru ekkert mættir hér til að dæma okkur út

Elliði Snær Viðarsson fékk rautt spjald í leiknum, sá Kristinn það atvik?

„Ég sá það ekki, en ég sá atvikið með Atla sem var aðeins á undan, ég tók ekkert eftir því þegar það gerðist. Það þýðir því lítið fyrir mig að segja eitthvað til um þetta. Þeir hljóta að vera rosalega vissir í sinni sök fyrst þeir eru með þetta svona á hreinu. Bjarki taldi sig vera með það 100% á hreinu sem hafði gerst þarna. Hann hlýtur þá að hafa rétt fyrir sér,“ sagði Kristinn en í þessu atviki fékk Róbert Sigurðarson tveggja mínútna brottvísun fyrir brot á Atla Ævari Ingólfssyni, sem var svo dregin til baka og Elliða Snæ gefið rautt spjald fyrir brot á Hauki Þrastarsyni.

„Súmmerar“ það ekki svolítið upp leikinn hjá þeim? Við getum talað um leikinn hjá okkur, tapaða bolta og lélegan varnarleik, við getum talað um þessa hluti hjá þeim. Vonandi fara allir heim og bæta sig í handbolta og við verðum með betri frammistöðu hjá öllum í næsta leik. Heilt yfir get ég ekki séð ástæðu til þess að vera brjálaður út í dómarana, „you win some, you lose some“. Við töpuðum á þessu í dag og vinnum einhvern tímann seinna á því, þeir eru ekkert mættir hér til að dæma okkur út.“

mbl.is