Erum til alls vísir þegar sá gállinn er á okkur

Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfyssinga.
Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfyssinga. Ljósmynd/Guðmundur Karl.

Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfyssinga, hefur komið skemmtilega inn í nýtt starf sitt hjá Selfossi en hann fagnaði sigri í kvöld á ÍBV í Vestmannaeyjum. Sonur Gríms, Hergeir Grímsson, skoraði sigurmarkið þegar 15 sekúndur voru til leiksloka.

„Þetta er ljúft, það er ekkert hvaða lið sem er sem kemur hingað og tekur tvö stig með sér upp á land. Menn verða að gera sér grein fyrir því að Eyjamenn eru með gríðarlega sterkt lið, að koma hingað og vinna þá eins og við náum að gera er frábært. Varnarleikurinn hjá okkur er góður að mínu mati, þeir þurfa að hafa mikið fyrir því að skora, fyrir mér var sóknarleikurinn þannig séð líka góður. Við skorum 30 mörk og fáum helling úr hraðaupphlaupum, það var þessi hlaupaleikur kannski sem við vinnum,“ sagði Grímur aðspurður hvað það hefði verið sem vann leikinn fyrir Selfyssinga.

Selfyssingar skora 30 mörk í leiknum úr þeim 34 skotum sem hitta markið.

„Þetta er góður fókus hjá mínum mönnum, við spiluðum við Malmö í Evrópukeppninni á laugardaginn, þar vorum við að kasta frá okkur færum, verkefnið hjá hverjum og einum í dag var að koma með fókus í færin. Færin voru gríðarlega vel kláruð í dag heilt yfir,“ sagði Grímur en þrátt fyrir frábæra færanýtingu var sóknarnýting Selfyssinga ekkert sérstök, liðið var með 18 tapaða bolta.

Hergeir Grímsson skoraði sigurmarkið í leiknum.
Hergeir Grímsson skoraði sigurmarkið í leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við töluðum um það strax í hálfleik þegar við vorum komnir með sex eða sjö tapaða bolta, það er ólíkt okkur. Við liggjum á bilinu 6-8 tapaðir boltar, hámark, en þetta er klárlega eitthvað sem við verðum að skoða. Eyjamenn spila þannig vörn að það þarf kjark til að sendingarnar klikki ekki og svona, við vorum með þennan kjark inn á milli en svo duttum við á köflum niður, þá pressuðu þeir okkur í feila.“

Hergeir og Atli Ævar Ingólfsson klikka ekki á skoti í kvöld, Atli með 8 mörk og Hergeir með 6.

„Þetta er fókus, þú nefnir Atla og Hergeir, þeir voru ekki ánægðir með sína færanýtingu á laugardaginn í seinni hálfleik, það þurfti ekkert að ræða við þá. Ég vissi að þeir kæmu hér inn með fókusinn í lagi, þetta eru toppíþróttamenn og klókir gæjar, þeir stóðu sig vel í dag.“

Dómararnir áttu ekki sinn besta leik og gáfu þeir Selfyssingum átta tveggja mínútna brottvísanir, Eyjamenn fengu fjórar og eitt rautt spjald.

„Ég myndi segja að það sé erfitt að dæma svona leik, það eru gríðarleg átök, hraði og síðan er þetta Selfoss á móti ÍBV, þetta er local og ekkert gefið eftir. Heilt yfir fannst mér þeir komast ágætlega frá þessu, það var tekist á og alltaf eftir svona leiki er hægt að spá í það hvort það hefði átt að vera brottvísun í þessu og hinu tilfellinu.“

Uppáhaldsútivöllurinn okkar

Það var mikill hiti inni á vellinum í leikmönnum og einnig í stuðningsmönnum liðanna, oft hefur verið sagt að stemningin sé austurevrópsk í Vestmannaeyjum og stemningin sé gríðarleg.

„Þetta er uppáhaldsútivöllurinn okkar, mínum strákum og mér finnst þetta vera leikur tímabilsins, að koma hingað. Það sem við gerðum í dag og gerum yfirleitt þegar við komum hingað er að njóta þess, þetta er lífið að spila í alvöruumgjörð og hita og allt þetta,“ sagði Grímur en það hefur sýnt sig undanfarin ár þar sem Selfyssingar hafa oft sótt góð úrslit til Vestmannaeyja.

„Við höfum ekki tapað hérna síðan við komum upp hérna fyrir fjórum árum, ég held að það sé þannig. Það er gríðarlega gott.“

Grímur vildi síðan koma nokkrum orðum til stuðningsmanna Selfyssinga fyrir leikinn mikilvæga á laugardag.

„Það væri mjög svekkjandi ef Selfyssingar, sjálfir Íslandsmeistararnir, og allt okkar fólk sem hefur stutt við bakið á okkur ef við fyllum ekki húsið. Ég er ekki í vafa um að við munum fylla húsið, við munum fá hrikalega skemmtilegan leik og verðum að sjá hvernig hann fer svo,“ sagði Grímur en Selfyssingar eru fimm mörkum undir og viðurkennir hann að þetta sé ákveðin brekka.

„Þetta er gríðarlega sterkt lið, Malmö, og eitt af bestu liðunum í Svíþjóð, þeir eru með gríðarlega mikla breidd, við erum á heimavelli og eins og ég hef sagt áður erum við til alls vísir þegar sá gállinn er á okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert