Jafnt í háspennuleik Hafnarfjarðarliðanna

Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að vörn Hauka en til varnar …
Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að vörn Hauka en til varnar eru Vignir Svavarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar og FH skildu jöfn í baráttunni um Hafnarfjörð í háspennuleik þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í fimmtu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 29:29-jafntefli en Haukar leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 14:11.

Mikið jafnræði var með liðunum nánast allan fyrri hálfleikinn og það voru FH-ingar sem höfðu frumkvæðið, framan af. Eftir tíu mínútna leik kom Ólafur Ægir Ólafsson Haukum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 5:4. Liðin skiptust áfram á að skora og eftir sautján mínútna leik kom Bjarni Ófeigur Valdimarsson FH-ingum yfir með laglegu skoti fyrir utan, 7:6. Einar Pétur Pétursson jafnaði metin fyrir Hauka í 7:7 og Adam Haukur Baumruk kom Haukum yfir eftir tuttugu mínútna leik með skrúfu af línunni og Haukar komnir með yfirhöndina, 8:7. Haukar létu kné fylgja kviði og þeir náðu fjögurra marka forskoti, 12:8, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik með marki Einars Péturs úr vinstra horninu. Ásbjörn Friðriksson klóraði í bakkann fyrir FH-inga og minnkaði muninn í 12:9.

Þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik fór Birgir Már Birgisson inn úr hægri horninu. Hann setti boltann aftur fyrir sig fram hjá Grétari Ara Guðjónssyni í marki Hauka og munurinn á liðunum allt í einu orðinn tvö mörk, 13:11. Bæði lið fengu mjög góð tækifæri til þess að bæta við mörkum undir lok fyrri hálfleiks en markmenn beggja liða voru afar drjúgir og Haukar leiddu í hálfleik með þremur mörkum, 14:11. FH-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn af gríðarlegum krafti á meðan Haukar voru kærulausir og töpuðu boltanum klaufalega frá sér.

Á 35. mínútu köstuðu Haukar boltanum frá sér, Arnar Freyr Ársælsson var fljótastur að átta sig. Hann tók boltann, brunaði upp allan völlinn og jafnaði metin fyrir FH í 15:15. Á 41. mínútu kom Ásbjörn Friðriksson FH-ingum yfir í fyrsta sinn síðan um mðjan fyrri hálfleikinn, 19:18. Haukar voru klaufar og köstuðu boltanum frá sér á meðan FH-ingar refsuðu og Arnar Freyr Ársælsson kom FH tveimur mörkum yfir þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka, 21:19. Þá kom afar slæmur kafli hjá FH-ingum sem létu reka sig tvívegis út af með stuttu millibili.

Þetta kveikti í Adam Hauki Baumruk sem skoraði fjögur mörk í röð með þriggja mínútna millibili og kom hann Haukum yfir, 23:22, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Haukar héldu áfram og náðu tveggja marka forskoti þegar átta mínútur voru til leiksloka. Ásbjörn Friðriksson neitaði að gefast upp og dró FH-inga aftur inn í leikinn þegar hann minnkaði muninn í eitt mark, 25:24, þegar sex mínútur voru til leiksloka. Liðin skiptust á að skora eftir þetta og það var svo Ágúst Birgison sem jafnaði metin fyrir FH úr hraðaupphlaupi þegar tvær mínútur voru til leiksloka í 28:28.

Atli Már Báruson átti lokaskot leiksins en Phil Döhler varði frá honum og lokatölur í Hafnarfirðinum því 29:29. Haukar eru í öðru sæti deildarinnar með 9 stig en FH er í fimmta sætinu með 5 stig.

Haukar 29:29 FH opna loka
60. mín. Einar Rafn Eiðsson (FH) skoraði mark
mbl.is