Jafnt í háspennuleik Hafnarfjarðarliðanna

Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að vörn Hauka en til varnar ...
Bjarni Ófeigur Valdimarsson sækir að vörn Hauka en til varnar eru Vignir Svavarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar og FH skildu jöfn í baráttunni um Hafnarfjörð í háspennuleik þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í fimmtu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 29:29-jafntefli en Haukar leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 14:11.

Mikið jafnræði var með liðunum nánast allan fyrri hálfleikinn og það voru FH-ingar sem höfðu frumkvæðið, framan af. Eftir tíu mínútna leik kom Ólafur Ægir Ólafsson Haukum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 5:4. Liðin skiptust áfram á að skora og eftir sautján mínútna leik kom Bjarni Ófeigur Valdimarsson FH-ingum yfir með laglegu skoti fyrir utan, 7:6. Einar Pétur Pétursson jafnaði metin fyrir Hauka í 7:7 og Adam Haukur Baumruk kom Haukum yfir eftir tuttugu mínútna leik með skrúfu af línunni og Haukar komnir með yfirhöndina, 8:7. Haukar létu kné fylgja kviði og þeir náðu fjögurra marka forskoti, 12:8, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik með marki Einars Péturs úr vinstra horninu. Ásbjörn Friðriksson klóraði í bakkann fyrir FH-inga og minnkaði muninn í 12:9.

Þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik fór Birgir Már Birgisson inn úr hægri horninu. Hann setti boltann aftur fyrir sig fram hjá Grétari Ara Guðjónssyni í marki Hauka og munurinn á liðunum allt í einu orðinn tvö mörk, 13:11. Bæði lið fengu mjög góð tækifæri til þess að bæta við mörkum undir lok fyrri hálfleiks en markmenn beggja liða voru afar drjúgir og Haukar leiddu í hálfleik með þremur mörkum, 14:11. FH-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn af gríðarlegum krafti á meðan Haukar voru kærulausir og töpuðu boltanum klaufalega frá sér.

Á 35. mínútu köstuðu Haukar boltanum frá sér, Arnar Freyr Ársælsson var fljótastur að átta sig. Hann tók boltann, brunaði upp allan völlinn og jafnaði metin fyrir FH í 15:15. Á 41. mínútu kom Ásbjörn Friðriksson FH-ingum yfir í fyrsta sinn síðan um mðjan fyrri hálfleikinn, 19:18. Haukar voru klaufar og köstuðu boltanum frá sér á meðan FH-ingar refsuðu og Arnar Freyr Ársælsson kom FH tveimur mörkum yfir þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka, 21:19. Þá kom afar slæmur kafli hjá FH-ingum sem létu reka sig tvívegis út af með stuttu millibili.

Þetta kveikti í Adam Hauki Baumruk sem skoraði fjögur mörk í röð með þriggja mínútna millibili og kom hann Haukum yfir, 23:22, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Haukar héldu áfram og náðu tveggja marka forskoti þegar átta mínútur voru til leiksloka. Ásbjörn Friðriksson neitaði að gefast upp og dró FH-inga aftur inn í leikinn þegar hann minnkaði muninn í eitt mark, 25:24, þegar sex mínútur voru til leiksloka. Liðin skiptust á að skora eftir þetta og það var svo Ágúst Birgison sem jafnaði metin fyrir FH úr hraðaupphlaupi þegar tvær mínútur voru til leiksloka í 28:28.

Atli Már Báruson átti lokaskot leiksins en Phil Döhler varði frá honum og lokatölur í Hafnarfirðinum því 29:29. Haukar eru í öðru sæti deildarinnar með 9 stig en FH er í fimmta sætinu með 5 stig.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Haukar 29:29 FH opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með jafntefli í ótrúlegum leik!
mbl.is