Klaufar að klára þetta ekki

Atli Már Báruson sækir að Ágústi Birgissyni á Ásvöllum í …
Atli Már Báruson sækir að Ágústi Birgissyni á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var frábær leikur og ég er svekktur með að fá bara eitt stig út úr honum,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir 29:29-jafntefli liðsins gegn FH í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í fimmtu umferð deildarinnar í kvöld.

„Heilt yfir er ég mjög ánægður með strákana og frammistaða liðsins var mjög góð. Við spiluðum góðan handbolta og vorum í raun klaufar að vinna ekki leikinn. Við vorum meðvitaðir um það fyrir leik að við ættum mikið inni því við höfum ekki verið að spila neitt frábærlega, þrátt fyrir að vera taplausir. Strákarnir stigu hins vegar upp í kvöld og spiluðu fantagóðan handbolta og áttu sigurinn í skilinn.“

Markaskorun Hauka dreifðist vel í kvöld og þjálfarinn fékk framlag frá mörgum leikmönnum.

„Það var mjög jákvætt að sjá hversu margir leikmenn stigu upp í kvöld og við þurftum í raun bara á því að halda. Við erum búnir að vera í smá vandræðum sóknarlega en það var ekki þannig í kvöld. Menn sýndu frumkvæði og ég er mjög ánægður með það.“

Haukar eru taplausir í öðru sæti deildarinnar með 9 stig eftir fyrstu fimm leiki sína.

„Ég sá miklar framfarir á liðinu frá síðasta leik og við erum enn þá taplausir eftir fimm umferðir sem er jákvætt. Við virðum þetta stig þótt við hefðum að sjálfsögðu viljað fá tvö stig,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert