Ræðum þetta eftir hvern einasta leik

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var öflugur í liði FH-inga í kvöld …
Bjarni Ófeigur Valdimarsson var öflugur í liði FH-inga í kvöld og skoraði sjö mörk. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er aðeins búinn að ná mér niður núna en taugarnar voru vel þandar áðan,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir 29:29-jafntefli liðsins gegn Haukum í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í fimmtu umferð deildarinnar í kvöld.

„Þetta var týpískur FH - Haukar leikur fannst mér. Þetta var fram og til baka, allan tímann, og það ætlar sér aldrei neinn að tapa þessum leikjum. Menn koma þess vegna alltaf til baka, eftir að hafa lent undir, og ég held að jafntefli hafi verið sanngjarnasta niðurstaðan.“

Staðan í hálfleik var 14:11, Haukum í vil, en þrátt fyrir það segir Sigursteinn að hann hafi verið rólegur yfir stöðunni í hálfleik.

„Við vorum ekki stressaðir í hálfleik því við vorum að spila okkur í góð færi í fyrri hálfeik. Það eina sem vantaði var í raun bara að nýta þau betur. Þetta snerist þess vegna fyrst og fremst um það að nýta færin betur í seinni hálfleik og hafa meiri trú í færunum.“

Fjórum sinnum fengu leikmenn FH tveggja mínútna brottvísun í leiknum og Sigursteinn segir að menn þurfi að passa sig betur.

„Við verðum að fara að fækka þessum brottvísunum því þær hafa reynst okkur of dýrar, til dæmis í kvöld. Við vorum að brjóta klaufalega af okkur og við eigum að vita betur. Við ræðum þetta eftir hvern einasta leik og þetta hlýtur að fara detta inn,“ sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is.

mbl.is