Þetta eru alltaf geggjaðir leikir

Haukur Þrastarson.
Haukur Þrastarson. mbl.is/Hari

Ungstirnið Haukur Þrastarson átti góðan leik fyrir Selfyssinga í kvöld þegar liðið stöðvaði sigurgöngu ÍBV og það á þeirra heimavelli. Leiknum lauk með eins marks sigri gestanna 29:30.

„Ég er hrikalega sáttur með það hvernig við mætum í leikinn, við byrjum vel og eigum flottan fyrri hálfleik. Síðan kemur aðeins hik á okkur í restina, þegar við erum búnir að spila vel allan leikinn. VIð náðum að bjarga þessu, en það er hrikalega sterkt að koma á þennan útivöll og taka tvö stig, það er ekki sjálfgefið.“

„Við byrjum vel og komust strax 3 eða 4 mörkum yfir, þeir setja tvö mörk á okkur í lok fyrri en við byrjum svo aftur vel í seinni hálfleik. Þeir eru að elta okkur allan leikinn en það tekur á, þeir koma til baka og mega eiga það, en við náðum sem betur fer að bjarga þessu í lokin.“

ÍBV hefur átt frábær leiktímabil undanfarin 5-6 ár en það er alltaf eins og Selfyssingar séu með tak á þeim hérna í Vestmannaeyjum.

„Þetta eru alltaf hörkuleikir, það er lítill munur á liðunum, þessi var líka hörkuleikur. Þetta eru alltaf geggjaðir leikir á milli þessara liða, þetta endaði okkar megin í dag og ég er hrikalega ánægður með það.“

Markvarsla ÍBV í leiknum var nánast engin, voru Selfyssingar búnir að pæla mikið í því hvernig þeir ætluðu að skjóta á markmenn ÍBV?

„Persónulega ekki ég, en það getur verið að strákarnir hafi eitthvað pælt í því.“

Selfyssingar hafa farið ágætlega af stað á tímabilinu en samt tapað þremur leikjum, í meistarakeppni HSÍ, í deildinni gegn ÍR og síðan Evrópuleiknum gegn Malmö.

„Þetta er búið að vera ágætt, það er margt sem við getum gert betur. Við þurfum að vinna í því að bæta okkur því mér finnst við eiga fullt inni, við þurfum klárlega að fara yfir það, halda áfram að æfa og bæta okkur.“

Haukur átti góðan leik í kvöld, skoraði sex mörk og gaf sex stoðsendingar.

„Mér fannst þetta allt í lagi, en ég hefði getað gert betur, sérstaklega í seinni hálfleik, ég var tekinn aðeins út af og missti aðeins taktinn þá. Ég var ágætlega sáttur en maður getur alltaf gert betur,“ sagði hógvær Haukur en hver eru markmið Selfyssinga á leiktíðinni?

„Við erum að taka einn leik í einu, það er klisja að segja þetta en við þurfum að sjá til. Þetta er aðallega að halda áfram að bæta okkar leik, við erum með marga unga og reynslulitla menn, þeir eru að bæta sig með hverjum einasta leik.“

Þurfum að fylla kofann

Selfyssingar spila við Malmö á laugardaginn og eru fimm mörkum undir.

„Þetta einvígi er hvergi nærri búið á móti Svíunum, við ætlum að koma til baka og gefa þeim leik á laugardaginn. Við þurfum að fylla kofann, við vonumst til þess, þetta eru geggjaðir stuðningsmenn sem komu með bátnum í dag, þetta er ómetanlegt,“ sagði Haukur að lokum aðspurður hvort hann hefði einhver hvatningarorð til stuðningsmanna Selfyssinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert