Íslendingarnir létu lítið fyrir sér fara

Guðjón Valur Sigurðsson var eini Íslendingurinn sem komst á blað …
Guðjón Valur Sigurðsson var eini Íslendingurinn sem komst á blað í A-riðli Meistaradeildarinnar í dag. Ljósmynd/PSG

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði eitt mark úr fjórum skotum þegar lið hans PSG vann öruggan níu marka sigur gegn Celje í Meistaradeildinni í handknattleik í Frakklandi í dag. Leiknum lauk með 27:18-sigri PSG en staðan í hálfleik var 12:11, PSG í vil.

Nedim Remili var atkvæðamestur í liði PSG með sjö mörk en PSG er með fullt hús stiga á toppi A-riðils með átta stig eftir fyrstu fjóra leiki sína. Þá mættust Íslendingaliðin Aalborg og Pick Szeged í Danmörku þar sem Pick Szeged vann 35:28-sigur. 

Janus Daði Smárason komst ekki á blað hjá Aalborg og sömu sögu er að segja um Stefán Rafn Sigurmannsson hjá Pick Szeged. Ómar Ingi Magnússon var ekki í leikmannahóp Aalborgar í leiknum í dag.

Þetta var fyrsti tapleikur Aalborgar í Meistaradeildinni í vetur en liðið er í fjórða sæti A-riðils með sex stig, líkt og Barcelona, en Pick Szeged er í fimmta sæti riðilsins með 5 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert