Framarar stöðvuðu sigurgöngu ÍR

Andri Heimir Friðriksson skoraði sigurmark Fram.
Andri Heimir Friðriksson skoraði sigurmark Fram. mbl.is/Árni Sæberg

Framarar stöðvuðu sigurgöngu ÍR-inga í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í kvöld með því að leggja þá að velli í æsispennandi leik í Safamýri, 29:28.

Framarar voru yfir í hálfleik, 17:16, og í þeim síðari voru liðin með forystuna til skiptis. ÍR komst í 26:24 þegar átta mínútur voru eftir en það var Andri Heimir Friðriksson sem skoraði sigurmark Fram í lokin.

ÍR hafði unnið fimm fyrstu leiki sína en er nú dottið niður í annað sætið með 10 stig eftir sex leiki, einu stigi minna en Haukar. Framarar höfðu tapað fjórum af fyrstu fimm leikjunum en eru nú komnir með 4 stig.

Matthías Daðason skoraði 9 mörk fyrir Framara og þeir Þorgrímur Smári Ólafsson og Stefán Darri Þórsson 6 mörk hvor.

Sturla Ásgeirsson skoraði 11 mörk fyrir ÍR-inga, Bergvin Þór Gíslason 5 og Kristján Orri Jóhannsson 4.

mbl.is