„Þeir eru með svakalegar byssur“

Grímur Hergeirsson
Grímur Hergeirsson Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Þetta var skemmtilegur leikur, mikill hraði og mikið af mörkum. Það var líka mikið „passion“ í þessu, KA er með frábært lið og skemmtilega leikmenn, þannig að þetta var hörkuleikur,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Íslandsmeistara Selfoss, eftir 36:34 sigur gegn KA á heimavelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Maður sér alveg fingraförin hans Stebba [Stefáns Árnasonar] á þessu liði, þeir leggja allt í þetta og við vissum það fyrirfram að þetta yrði erfitt verkefni. Ég hafði smá áhyggjur af mínum mönnum fyrir leik, við erum búnir að vera í erfiðu prógrammi og það eru aðeins meiðsli í hópnum, eins og gerist og gengur. En ég verð að hrósa mínu liði hvernig þeir leystu verkefnið og tóku tvö góð stig á móti góðu KA liði, það er gríðarlega vel gert,“ sagði Grímur ennfremur.

Selfoss var komið með fimm marka forystu þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum en KA náði að minnka muninn niður í eitt mark og búa til smá spennu á lokamínútunni.

„Við missum mann útaf og þeir koma grimmir á lokakaflanum. Þeir eru með svakalegar byssur og nýttu þær vel á lokakaflanum en þetta hélt hjá okkur og við kláruðum leikinn vel,“ sagði Grímur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert