Tveir lykilmenn Dana draga sig út úr landsliðshópnum

Mikkel Hansen.
Mikkel Hansen. AFP

Mikkel Hansen og Henrik Toft Hansen, leikmenn franska meistaraliðsins Paris SG, hafa neyðst til þess að draga sig út úr danska landsliðshópnum í handknattleik fyrir Gullmótið sem hefst í Danmörku í næstu viku.

Báðir leikmennirnir eru að glíma við afleiðingar eftir að hafa fengið heilahristing. Mikkel hefur verið frá keppni í rúman mánuð eftir að hafa fengið heilahristing á æfingu Parísarliðsins en Henrik Toft fékk heilahristing í leik með Paris SG gegn Chambéry í frönsku 1. deildinni í síðustu viku.

Nikolaj Jacobsen, þjálfari heimsmeistara Dana, hefur í staðinn valið þá Lasse Møller úr GOG og Magnus Saugstrup. Á mótinu mæta Danir liðum Norðmanna, Frakka og Spánverja.

Danir leika í riðli með Íslendingum á Evrópumótinu sem haldið verður í Svíþjóð, Austurríki og í Noregi í janúar. Riðill Íslands verður spilaður í Malmö í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert