Aron og Guðjón Valur mætast í risaslag í Meistaradeildinni

Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson mætast í Meistaradeildinni í …
Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson mætast í Meistaradeildinni í handknattleik á laugardaginn. mbl.is/Golli

Það er enginn smá leikur sem fram fer í Palau Blaugrana-höllinni í Barcelona á laugardaginn þegar Barcelona og Paris SG leiða saman hesta sína í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik.

Aron Pálmarsson leikur með Barcelona og Guðjón Valur Sigurðsson er í herbúðum Paris SG. Barcelona er með sex stig eftir fjóra leiki en Parísarliðið er annað tveggja liða hefur fullt hús stiga í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Hitt er sænska liðið Sävehof sem spilar í C-riðlinum en með liðinu leikur landsliðsmarkvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson. Sävehof sækir spænska liðið Bidasoa heim í toppslag riðilsins á sunnudaginn.

Barcelona og Paris SG eru talin líkleg til afreka í Meistaradeildinni í ár enda valinn maður í hverju rúmi hjá þeim báðum.

Sex af liðsmönnum Paris SG hafa spilað með Börsungum en það eru þeir Viran Morros, Kamil Syprzak, Nikola Karabatic, Rodrigo Corrales, Mikkel Hansen og Guðjón Valur Sigurðsson, sem lék tvö tímabil með Katalóníuliðinu 2014 — '16.

Skörð eru höggvin í lið Paris SG en dönsku landsliðsmennirnir Mikkel Hansen og Henrik Toft Hansen eru úr leik vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert