Löwen gerði jafntefli við toppliðið

Bjarki Már Elísson skoraði 9 mörk í kvöld.
Bjarki Már Elísson skoraði 9 mörk í kvöld. Ljósmynd/Lemgo

Rhein-Neckar Löwen, lið Kristjáns Andréssonar þjálfara og Alexanders Petersson, gerði jafntefli við toppliðið Hannover Burgdorf 29:29 í þýsku bundesligunni í handknattleik í kvöld.

Alexander skoraði 3 mörk fyrir Löwen sem er í 5. sæti með 14 stig eftir tíu leiki. Burgdorf er með 17 stig í efsta sætinu, tveimur stigum fleiri en meistaraliðið Flensburg og Melsungen.

Erlangen tapaði í gær fyrir Melsungen 28:27 en Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar Erlangen sem er 9. sæti með 10 stig.

Kiel á tvo leiki til góða en liðið er með 14 stig eftir átta leiki. Kiel hafði betur gegn Wetzlar á útivelli 30:26. Gísli Kristjánsson kom ekki við sögu hjá Kiel.

Bjarki Már Elísson raðar inn mörkunum fyrir Lemgo en liðið tapaði fyrir Leipzig 34:32 á útivelli. Bjarki skoraði 9 mörk og Viggó Kristjánsson skoraði 2 fyrir Leipzig. Leipzig er í 6. sæti með 14 stig en Lemgo hefur aðeins unnið einn leik.

Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir Stuttgart í 28:33 tapi fyrir Magdeburg á útivelli. Stuttgart er með 4 stig. 

mbl.is