Aron hafði betur gegn Guðjóni Val

Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson mættust í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson og Aron Pálmarsson mættust í kvöld. Ljósmynd/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Aron Pálmarsson og samherjar hans Í Barcelona unnu sterkan 36:32-heimasigur á Guðjóni Val Sigurðssyni og liðsfélögum hans í PSG í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld. 

PSG komst í 12:10, en Barcelona skoraði níu af tólf síðustu mörkum fyrri hálfleiks og var staðan í hálfleik 19:15. PSG tókst ekki að jafna metin í seinni hálfleik.

Aron skoraði fjögur mörk fyrir Barcelona, eins og Guðjón Valur fyrir PSG. Liðin eru jöfn á toppi A-riðils með átta stig, einu stigi meira en Flensburg. 

Íslendingar voru áberandi í sterkum 36:28-sigri Kristianstad á Medvedi frá Rússlandi í Svíþjóð í D-riðli. Teitur Örn Einarsson skoraði sex mörk fyrir Kristianstad og Ólafur Andrés Guðmundsson gerði fimm mörk og lagði auk þess upp fimm til viðbótar. Sigurinn var sá fyrsti hjá Kristianstad í keppninni á leiktíðinni. 

Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Kiel gerðu góða ferð til Frakklands og unnu 33:30-sigur á Montpellier. Gísli komst ekki á blað fyrir Kiel. Þýska liðið er í toppsæti B-riðils með níu stig eftir fimm leiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert