Framarar fyrstir til að vinna Stjörnuna

Framkonan Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að marki Stjörnunnar í dag.
Framkonan Ragnheiður Júlíusdóttir sækir að marki Stjörnunnar í dag. mbl.is/Hari

Fram varð fyrst liða til þess að vinna Stjörnuna í Olís-deild kvenna í handknattleik á þessari leiktíð. Lokatölur 28:25 fyrir Fram eftir að liðið var marki yfir í hálfleik, 14:13. Liðinu sitja í öðru til þriðja sæti deildarinnar með átta stig hvort eftir fimm leiki. Valur trónir á toppnum með tíu stig.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og skoraði m.a. fjögur af fyrstu sex mörkunum. Fram-liðið vann sig inn í leikinn og skipti þar miklu máli að Hafdís Renötudóttir hrökk í gang auk þess sem skortur á yfirvegun hljóp í sóknarmenn Stjörnunnar. Fram skoraði fimm mörk í röð upp úr miðjum fyrri hálfleik og breytti stöðunni úr 7:6 Stjörnunni í vil í 11:7, Fram í hag. Ekki brotnaði Stjörnu-liðið við mótlætið, þvert á móti virtist það herða róðurinn. Varnarleikurinn batnaði og Hildur Öder Einarsdóttir kom í markið og varð allt hvað af tók. Klaudia Powaga, sem byrjaði í marki Stjörnunnar, náði sér ekkert á strik og var skipt af leikvelli upp úr miðjum hálfleiknum. Stjarnan vann sig til baka og jafnaði metin 11:11. Eftir það var nánast jafnt á öllum tölum til hálfleiks þegar Fram var marki yfir, 14:13. Hildur Öder kom í veg fyrir að munurinn væri tvö mörk þegar hún varði frá Perlu Ruth Albertsdóttur úr dauðafæri rétt áður en Anton Gylfi Pálsson og Jón Karl Björnsson flautuðu til loka fyrri hálfleiks.

Eins og í fyrri hálfleik þá hófst Stjarnan síðari hálfleikinn betur en heimaliðið.  Sóknarleikurinn gekk vel og einnig varnarleikurinn.  Stjarnan var yfir, 17:15 og 18:17, áður en Fram-liðið náði vopnum sínum á ný með betri varnarleik. Fram komst þremur mörkum yfir, 21:18 og fjórum mörku, 23:19, þegar rúmar 11 mínútur voru til leiksloka. Sóknarleikur Stjörnunnar hafði þá verið í handaskolum um skeið og Sebastian Alexandersson þjálfari liðsins neyðst til að taka bæði leikhlé sín með fárra mínútna millibili. Fram komst mest fimm mörkum yfir á kafla, 26:21.

Stjörnuliðið var sjálfu sér verst í þessum leik. Liðið gerði alltof mörg mistök í sóknarleiknum í síðari hálfleik. Þau mistök reyndust dýr þegar þegar upp var staðið. Þórey Anna Ásgeirsdóttir var besti leikamaður liðsins. Hún skoraði auk þess 11 mörk og var lang markahæst.

Fram-liðið mallaði áfram allan leikinn og nýtti sér vel veikleika í sóknarleik Stjörnunnar þegar á leið síðari hálfleik. Byggði þá upp forskot sem liðið náði að halda til leiksloka. Karen Knútsdóttir var markahæst hjá Fram með sjö mörk. Steinunn Björnsdóttir var næst með fimm mörk.

Fram 28:25 Stjarnan opna loka
60. mín. Hildur Þorgeirsdóttir (Fram) skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert