Hefur verið dimmt í kjallaranum

Árni Stefán Guðjónsson, þjálfari Hauka.
Árni Stefán Guðjónsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Stefán Guðjónsson, þjálfari Hauka, var himinlifandi eftir leik sinna kvenna í dag er liðið sigraði ÍBV í Vestmannaeyjum, 18:21. Sara Odden var frábær í leiknum og var Árni ekki síður ánægður með hana og hennar átta mörk.

Gamla klisjan

„Það er þessi gamla klisja, fyrst og fremst vörnin í dag. Saga varði líka bolta í fyrri hálfleik, en varnarlega var unun að fylgjast með okkur í fyrri hálfleik,“ sagði Árni spurður að því hvers vegna Haukar hefðu unnið í dag.

„ÍBV fór síðan að spila aðeins nær sinni eðlilegu getu og þá gáfum við eftir, við urðum eðlilega svolítið stressaðar. Þetta er búið að vera erfitt að vera í kjallaranum með fjóra leiki og núll stig, við stigum upp á hárréttum augnablikum í seinni hálfleik og náðum að klára þetta,“ sagði Árni en það verður að gefa Haukunum hrós fyrir það hve illa liðið lét leikmenn ÍBV líta út.

„Ég var allavega alinn upp við það í Krikanum að þú spilar aldrei betur en andstæðingurinn leyfir, ég ætla að leyfa mér að hrósa stelpunum fyrir það. Krafturinn sem var í okkur í dag er það sem við erum búnar að leita eftir. Þetta vesen á okkur finnst mér ekki hafa snúist um handboltalega getu, þetta hefur bara verið eitthvað svona í hausnum á okkur sem hefur ekki alveg verið að smella. Við sjáum í dag að þegar þetta smellur þá erum við með frábært handboltalið, ég held að leiðin sé bara upp á við hjá okkur.“

Sóknir ÍBV í fyrri hálfleik voru alls ekki góðar, þær voru með 10 tapaða bolta og rétt rúmlega 26% skotnýtingu ofan á það. Vörn Hauka var virkilega góð og gaf fá góð færi á sér.

„Þær voru augljóslega ekki að hitta á sinn besta dag en vörnin hjá okkur var helvíti beitt. Við vorum einnig aggresífar en það hefur vantað hjá okkur í síðustu leikjum, þegar vörnin sem við spilum nær að smella er mikið af töpuðum boltum. Loksins náðum við líka að refsa svolítið í hraðaupphlaupum og seinni bylgjunni. Mér fannst þetta virkilega heilsteyptur fyrri hálfleikur og þó að við höfum gefið eftir í seinni er ég mjög sáttur með stigin.“

Framan af var sóknarleikur Haukanna engin snilld en liðið tapaði níu boltum í fyrri hálfleik, en skotnýting liðsins var vel yfir 50% og það gerði gæfumuninn.

„Þetta voru miklir yfirburðir í fyrri hálfleik, ég nefndi það við stelpurnar í hálfleik að við hefðum vel getað verið 3-4 mörkum í viðbót yfir af því að við vorum líka klaufar. Þegar maður er að leggja áherslu á að hlaupa hratt í seinni bylgjunni og hraðaupphlaupum þá verður maður að geta sætt sig við það að tapa nokkrum boltum. Við erum að ná sjálfstraustinu upp, það hefur verið dimmt í kjallaranum en við erum vonandi að komast upp úr honum núna.“

Frábær leikur hjá Söru í dag

Það var ekki hægt að spjalla við Árna eftir þennan leik án þess að ræða frammistöðu Söru Odden en hún átti frábæran leik, skoraði átta mörk úr fyrstu 10 skotum sínum, átti þrjár stoðsendingar, stal þremur boltum og blokkaði tvo. Í fyrstu þremur leikjunum skoraði hún 6 mörk úr 31 skoti en í dag gerði hún sex mörk úr átta skotum í fyrri hálfleik.

„Það er búið að vera blanda af því að hún er að aðlagast boltanum hjá okkur og koma sér í almennilegt leikform, við erum líka að reyna að finna réttu leiðirnar til að nota hana. Í dag gengur þetta rosalega vel upp og hún er að velja réttu augnablikin til að skjóta og þá sjáum við hvað í henni býr. Ég held að þegar líður á tímabilið eigi hún eftir að batna og batna og nýtast okkur ótrúlega vel,“ Árni hélt svo áfram að hrósa Söru sem var alveg frábær.

„Hún er lykilmanneskja fyrir okkur í vörn og sókn í dag en ég hefði kannski átt að rúlla henni betur og eiga hana ferskari í seinni,“ sagði Árni en hún fékk þó smá hvíld sóknarlega og átti þennan líka glimrandi dag varnarlega.

„Þetta er stelpa sem er eins og staðan er í dag betri varnarmaður heldur en sóknarmaður, hún er með þennan svaka skrokk og langar hendur. Það er auðvelt fyrir hana að trufla sóknina og komast inn í boltana. Frábær leikur hjá henni í dag og vonandi það sem koma skal fyrir framhaldið.“

Ákveðnu fargi af okkur létt

Taka Haukar þennan leik sem nýtt upphaf á tímabilinu, eftir fjóra tapleiki í röð?

„Já og nei, við nýttum okkur mikið af jákvæðum hlutum úr þessum leikjum sem eru búnir, þetta eru klárlega vonandi ákveðin kaflaskil hjá okkur hvað þetta varðar. Við ræddum það inn í klefa að það er svona ákveðnu fargi af okkur létt, kannski ekki þungu, en eigum við ekki að segja að leiðin liggi upp á við hjá okkur?“

Þórhildur Braga Þórðardóttir kom inn í hóp liðsins fyrir leikinn í dag og Hekla Rún Ámundadóttir er að spila annan leikinn sinn á tímabilinu, Árni segir þær sem og aðra meidda leikmenn eiga eftir að styrkja hópinn vel.

„Við höfum verið að bíða eftir þeim frá því að þær fóru í aðgerðina í sumar, við eigum einnig inni Ástríði í markinu og Ragnheiði inni á línunni sem hafa verið meiddar. Þetta er að skríða saman hjá okkur og eins og ég er ekki búinn að þreytast á að segja við stelpurnar er þetta frábær hópur handboltalega séð og á meðan hausinn er rétt stilltur þá eru þeim allir vegir færir,“ sagði Árni að lokum en hann var virkilega sáttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert