Til skammar hvernig við mætum til leiks

Sunna Jónsdóttir
Sunna Jónsdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Sunna Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV í Olísdeild kvenna í handbolta, var augljóslega ekki sátt með frammistöðu liðsins í dag þegar Haukar mættu og tóku öll stigin í Vestmannaeyjum. Haukar voru ekki enn komnir með stig á botni deildarinnar en ÍBV hafði 3 stig.

Það fór allt úrskeiðis

„Eiginlega allt sem gat farið úrskeiðis, fór úrskeiðis, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem við byrjuðum ömurlega og komumst ekkert í takt við leikinn. Við vorum sofandi og þetta er til skammar hvernig við mætum til leiks,“ sagði Sunna en hún var ekki viss af hverju liðið mætti svona til leiks.

„Ef ég hefði svör við því þá hefði þetta væntanlega ekki gerst en við þurfum að fara mjög vel yfir okkar mál. Allar þurfa að líta í eigin barm og allir, við verðum að reyna að laga það sem við gerðum vitlaust.“

Leikurinn var mjög kaflaskiptur, ÍBV leiddi 3:2 en í hálfleik var staðan 6:13. Leikmenn ÍBV reyndu hvað þær gátu til að jafna metin en komust einungis mest tveimur mörkum frá Haukunum.

„Við erum með marga nýja leikmenn og ungt lið, það tekur tíma að slípa þetta saman og krefst þolinmæði, þetta er til skammar, að mæta svona til leiks. Það er fullt af fólki í húsinu og allir standa við bakið á okkur, við eigum að geta gert betur en þetta.“

Megum ekki grafa okkur í sandinn

Eru lykilleikmenn ekki að standa sig?

„Lykilleikmenn eru ekki að finna sig og þar með talin ég, þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna í og halda áfram. Sjálfstraustið dettur niður þegar það gengur illa og við þurfum að skoða þetta vel.“

Byrjun ÍBV á tímabilinu hefur verið erfið eftir að liðið vann fyrsta leikinn gegn Aftureldingu, liðið hefur þá tapað gegn Fram, Stjörnunni og Haukum en gert jafntefli við HK.

„Þegar við förum yfir þetta er þessi leikur mjög svekkjandi, þetta eru tvö stig sem við hefðum viljað og átt að taka. Þetta er mjög jafnt, ég tel sjálf að Fram og Valur séu með bestu liðin en svo geta allir unnið alla, hvert stig telur. Þrjú stig er ekki eins og við vildum en við tökum þeim samt.“

Vill Sunna meina að handboltinn sem er spilaður í ár sé mikið frábrugðinn þeim handbolta sem liðið spilaði í fyrra?

„Klárlega, einn af okkar bestu leikmönnum í fyrra Arna Sif (Pálsdóttir) er farin og það fór mikið í gegnum hana í fyrra. Við erum samt klárlega með leikmenn og gott lið sem getur spilað sig saman ef við finnum taktinn, það er bara október,“ sagði Sunna en það er gott fyrir liðið að vita að mikið sé eftir af tímabilinu.

„Já, algjörlega, við megum ekkert grafa okkur í sandinn, þetta er mjög fúlt og svekkjandi en það þarf líka að sýna úr hverju við erum gerðar því við getum miklu betur. Vonandi verður þetta vaxandi hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert