Draumur að fá landsliðskallið

Elliði Snær Viðarsson er í landsliðshópnum sem mætir Svíum í …
Elliði Snær Viðarsson er í landsliðshópnum sem mætir Svíum í vináttuleikjum á næstu dögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er gaman að fá tækifæri til þess að vera hluti af þessum hópi og leikirnir gegn Svíum leggjast þess vegna mjög vel í mig,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is á æfingu íslenska liðsins í Framheimilinu í Safamýri í dag.

Elliði er í nítján manna landsliðshóp Guðmundar Guðmundssonar sem mætir Svíþjóð í tveimur vináttulandsleikjum á næstu dögum. Fyrri leikurinn fer fram í Kristianstad 25. október og sá síðari í Karlskrona 27. október en Elliði var fyrirliði U21 árs landsliðsins á HM U21 sem fram fór á Spáni síðasta sumar.

„Það kom mér mikið á óvart að vera valinn í hópinn ef ég á að vera alveg hreinskilinn því ég bjóst alls ekki við því að fá tækifæri strax. Að sama skapi var þetta stór draumur að rætast í leiðinni. Ég á ekki von á því að íslenska landsliðið sé að fara að breyta mikið út af í varnarleiknum en ég þekki þann varnarleik ágætlega sem liðið hefur verið að spila. Ég hef spilað þessa vörn með U21 árs landsliðinu, þótt ÍBV spili meira 5-1 vörn, og þetta hefur hentað mér ágætlega hingað til. Sú reynsla sem ég hef öðlast með U21 mun klárlega nýtast mér með A-landsliðinu og ég veit nokkurn veginn hvað það er sem þjálfararnir eru að leita að.“

Magnús Stefánsson lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil.
Magnús Stefánsson lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil. mbl.is/Hari

Duglegur að leita ráða hjá Magnúsi frá Fagraskógi

Elliði hefur spilað mjög vel með ÍBV í upphafi tímabils og verið algjör lykilmaður í varnarleik liðsins.

„Við byrjuðum tímabilið á síðustu leiktíð illa en það hefur verið allt annað upp á teningnum hjá okkur núna. Við vorum staðráðnir í því að byrja þetta tímabil af miklum krafti og það hefur gengið eftir. Vissulega komu þarna tveir tapleikir en að þeim undanskildum hefur þetta verið mjög gott. Hlutverk mitt er orðið stærra í liðinu, sérstaklega eftir að Maggi [Magnús Stefánsson] steig til hliðar. Hann skildi eftir sig stórt skarð sem ég hef reynt að gera mitt besta í að fylla upp í. Að sama skapi er alltaf hægt að leita til hans varðandi ráðleggingar og annað sem er mjög jákvætt.“

Línumaðurinn öflugi gerir sér vonir um að spila gegn Svíum en er líka meðvitaður um það að samkeppnin hjá landsliðinu er mikil.

„Að sjálfsögðu geri ég mér vonir um að fá tækifæri til þess að spila. Eins og staðan er núna eru ekki margir að berjast um stöðuna við mig, fyrir framan vörnina, en það getur breyst fljótt. Eins er ég að berjast við einn besta línumann á Íslandi, ef ekki þann besta, um stöðuna í sókninni þannig að væntingarnar eru kannski aðeins minni þar,“ sagði Elliði Snær í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert