Gáfum eftir í lokin

Grímur Hergeirsson, þjálfari 'Íslandsmeistara Selfoss.
Grímur Hergeirsson, þjálfari 'Íslandsmeistara Selfoss. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Við vorum inni í leiknum þar til blálokin og auðvitað er ég vonsvikinn. Það er alltaf leiðinlegt að tapa, ekki síst með einu marki eftir að verið með yfirhöndina 75 til 80 prósent af leiknum,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari karlaliðs Selfoss í handknattleik eftir naumt tap fyrir Aftureldingu, 32:31, í hörkuleik í Olís-deild karla að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.

Selfoss-liðið var lengst af með yfirhöndina í leiknum í kvöld en gaf eftir á lokamínútunum með þeim afleiðingum að Mosfellingar náðu í tvígang tveggja marka forskoti á síðustu tveimur mínútunum. Þetta var annað tap Selfoss-liðsins í Olís-deildinni á leiktíðinni.

„Við gáfum aðeins eftir auk þess sem okkur brást bogalistinn í þremur dauðafærum þar sem markvörður Aftureldingar varði frá okkur. Um þetta munaði í jöfnum leik. Svo var markvarslan ekki góð hjá okkur í síðari hálfleik. Það er alltof lítið að verja aðeins tvö skot. Hvað annað brást hjá okkur sé ég betur þegar ég fer yfir leikinn þegar heim verður komið,“ sagði  Grímur og bætti við. „Við lékum að mörgu leyti mjög góðan leik en Aftureldingarliðið var sterkara á lokakaflanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert