Fórum aðeins framúr okkur

Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Fram.
Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var sérstaklega óánægður með fyrri hálfleikinn hjá okkur nánast frá a til ö. Við töpuðum boltanum alltof oft og náðum alls ekki að leika okkar varnarleik,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, spurður hvort tapið fyrir KA í Olís-deildinni í dag á heimavelli hafi ekki verið bakslag fyrir liðið eftir þrjá sigurleiki í röð. Lokatölur, 26:24, en með sigrinum fluttist KA upp í sjöunda sæti deildarinnar en Fram féll niður í það áttunda.

„Við létum brjóta alltof oft á okkur í sókninni í fyrri hálfleik. Þar af leiðandi náðist ekkert flæði í okkar leik. Þetta var ekki góð blanda hjá okkur,“ sagði Guðmundur Helgi sem var sáttari við síðari hálfleikinn hjá hans liði þótt það nægði ekki til þess að krækja í að minnsta kosti annað stigið.

„Ég er ánægður með að karakterinn í liðinu að koma til baka í síðari hálfleik og gera viðureignina að leik. Það er karakter í mínu liði eins sást vel enda eru menn hundsvekktir inn í klefa núna strax eftir leikinn. Við ætluðum okkur meira. Segja má að við höfum farið aðeins framúr okkur í upphafi leiksins og gerðum þar af leiðandi ekki það sem rætt hafði verið um. Þannig er þetta.  Það er erfitt að spila við KA-liðið sem fær að leika mjög grófan varnarleik eins og í dag. Ég var ekki sáttur við marga dóma í leiknum. Kannski voru dómararnir á sömu línu og við, bara lélegir, því miður. Dómarar eiga slæma daga eins leikmenn,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson,þjálfari karlaliðs Fram í samtali við mbl.is í Safamýri í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert