Stórskytta send heim í sparnaðarskyni

Tarik Kasumovic hefur sig til flugs í leik með KA …
Tarik Kasumovic hefur sig til flugs í leik með KA gegn Val. Hann leikur ekki fleiri leiki með þeim gulklæddu sem sögðu upp samningi sínum við Bosníumanninn í sparnaðarskyni. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Félagið nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Tarik Kasumovic. Hann er þar af leiðandi farinn frá okkur. Ástæðan er fjárhagslegs eðlis,“ sagði Stefán Árnason, annar þjálfari karlaliðs KA, um brotthvarf bosnísku stórskyttunnar Tariks Kasumovic. Hann yfirgaf KA-liðið fyrir helgina og er ekki væntanlegur aftur.

Spurður hvort Kasumovic hafi ekki skilað því til liðsins á þessari leiktíð sem í hann hefur verið lagt sagði Stefán það ekki vera ástæðu fyrir uppsögn samningsins.

„Tarik er frábær strákur sem lék virkilega vel fyrir okkur. Ég er mjög ánægður með hans framlag en við þurftum að draga saman seglin fjárhagslega og þess vegna var þessi ákvörðun tekin. Í staðinn munum við hlúa enn betur að öllum þeim ungu heimamönnum sem eru innan okkar raða. Þeir fá nú tækifæri og ég veit að þeir munu standa undir væntingum eins og sást meðal annars í leiknum við Fram í dag.  Þeiru eru tilbúnir í slaginn,“ sagði Stefán Árnason, annar þjálfari KA-liðsins í handknattleik karla.

Kasumovic var einn markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð. Hann skoraði 30 mörk í fyrstu sjö leikjum KA á yfirstandandi keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert