Vorum kaldir þegar á reyndi

Stefán Árnason og Jónatan Þór Magnússon, þjálfarar KA, voru ánægðir …
Stefán Árnason og Jónatan Þór Magnússon, þjálfarar KA, voru ánægðir eftir sigurinn í Framhúsinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var virkilega kærkominn sigur. Við getum verið mjög ánægðir með hvaða hugarfari við komum til leiks og hvernig spilamennskan var,“ sagði raddlítill þjálfari KA-manna, Stefán Árnason, í samtali við mbl.is eftir tveggja marka sigur liðsins á Fram í Safamýri í dag í Olís-deild karla í handknattleik, 27:25. Með sigrinum færðist KA upp um tvö sæti í deildinni, upp í það sjöunda með sjö stig.

KA-liðið var með yfirhöndina í leiknum nánast frá upphafi og náði mest fimm marka forskoti oftar en einu sinni.  „Varnarleikurinn var frábær hjá okkur frá upphafi auk þess við náðum að bregðast fljótt við því sem Fram-liðið gerði í leiknum.  Við vorum kaldir þegar á reyndi þótt við höfum vissulega gert mistök inn á milli, eins og gengur. Við vorum til dæmis á tæpasta vaði undir lokin,“ sagði Stefán ennfremur en Fram-liðið gerði harða atlögu að KA-mönnum á síðustu mínútunni m.a. með því að leika maður á mann.

„Þegar á mest á reyndi þá stóðumst við álagið. Hugarfarið var frábært í liðinu og spennustigið alveg hárrétt stillt. Við vorum klókir og grimmir. Svona viljum við vera, það er lið sem á fullri ferð frá upphafi til enda sem er erfitt að spila á móti. Þannig vorum við í dag,“ sagði Stefán sem undirstrikar að útisigur á liði sem er á svipuðu róli í deildinni hafi mikið að segja fyrir hópinn.  Virki eins og vítamínsprauta. 

„Allir sigrar skipta máli en vissulega geta þessi tvö stig skipt miklu þegar upp verður staðið.  Ég er ánægður með að við getum mætt á útivöll hjá liði sem er á svipuðu róli og við og skilað svona frammistöðu. Það er þroskamerki og framfaraskref frá síðasta ári,“ sagði Stefán Árnason, annar þjálfari karlaliðs KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert