Ekkert við þessu að gera

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Aftureldingar, freistar þess að koma skoti ...
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Aftureldingar, freistar þess að koma skoti að marki Hauka gegn Atla Má Bárusyni og Vigni Svavarssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tapið er vitanlega svekkjandi því mér fannst við leika vel og eiga möguleika á að vinna leikinn,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik, eftir eins marks tap fyrir Haukum í uppgjöri efstu liðanna í Olís-deild karla að Varmá í kvöld, 24:23.

„Við fórum illa að ráði okkar í nokkrum sóknum undir lokin og eins þegar við vorum um tíma einum og tveimur fleiri snemma í síðari hálfleik. Úr þeirri stöðu unnum við alls ekki nógu vel. Möguleikarnir voru fyrir hendi. En yfirhöfuð var spilamennska okkar vel þolanleg en það þarf að gera aðeins betur á móti jafn góðu liði og Haukar hafa yfir að ráða,“ sagði Einar Andri enn fremur.

Afturelding fékk tækifæri til þess að jafna metin á síðustu sekúndunum eftir að boltinn var dæmdur af Haukum. Grétar Ari Guðjónsson, markvörður Hauka, kom í veg fyrir að Guðmundur Árni Ólafsson, hornamaður Aftureldingar jafnaði metin, nokkrum andartökum áður en leiktíminn  rann út.  „Guðmundur hefur tryggt okkur stig í leikjum fyrr á leiktíðinni. Hann fór óhikað inn úr sínu færi í kvöld en því miður tókst honum ekkert að skora. Við því er ekkert að gera. Það er stutt á milli í boltanum,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is