Ekkert við þessu að gera

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Aftureldingar, freistar þess að koma skoti …
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Aftureldingar, freistar þess að koma skoti að marki Hauka gegn Atla Má Bárusyni og Vigni Svavarssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tapið er vitanlega svekkjandi því mér fannst við leika vel og eiga möguleika á að vinna leikinn,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik, eftir eins marks tap fyrir Haukum í uppgjöri efstu liðanna í Olís-deild karla að Varmá í kvöld, 24:23.

„Við fórum illa að ráði okkar í nokkrum sóknum undir lokin og eins þegar við vorum um tíma einum og tveimur fleiri snemma í síðari hálfleik. Úr þeirri stöðu unnum við alls ekki nógu vel. Möguleikarnir voru fyrir hendi. En yfirhöfuð var spilamennska okkar vel þolanleg en það þarf að gera aðeins betur á móti jafn góðu liði og Haukar hafa yfir að ráða,“ sagði Einar Andri enn fremur.

Afturelding fékk tækifæri til þess að jafna metin á síðustu sekúndunum eftir að boltinn var dæmdur af Haukum. Grétar Ari Guðjónsson, markvörður Hauka, kom í veg fyrir að Guðmundur Árni Ólafsson, hornamaður Aftureldingar jafnaði metin, nokkrum andartökum áður en leiktíminn  rann út.  „Guðmundur hefur tryggt okkur stig í leikjum fyrr á leiktíðinni. Hann fór óhikað inn úr sínu færi í kvöld en því miður tókst honum ekkert að skora. Við því er ekkert að gera. Það er stutt á milli í boltanum,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is