Haukar endurheimtu toppsætið

Haukar endurheimtu toppsæti Olís-deildar karla í handknattleik þegar þeir unnu Aftureldingu, 24:23, í hörkuskemmtilegum og hnífjöfnum leik að Varmá í Mosfellsbæ. Haukar voru einnig marki yfir í hálfleik, 14:13.

Þar með hafa Haukar 14 stig í efsta sæti deildarinnar og hafa ekki tapað leik enn þá þegar átta umferðir eru að baki. Afturelding situr í öðru sæti tveimur stigum á eftir.

Guðmundur Árni Ólafsson fékk tækifæri til jafna metin fyrir Aftureldingu undir lokin en Grétar Ari Guðjónsson, markvörður Hauka, sá við honum. 

Toppslagurinn sveik örugglega fáa. Fyrri hálfleikur var jafn og skemmtilegur þar sem liðin skiptust á að hafa eins marks forskot með tveimur undantekningum. Afturelding komst 3:1 yfir snemma leiks og Haukar 10:8 þegar á leið. Annars var viðureignin eins og jöfn og hugsast gat. Hraðinn var mikill, vel tekið á en einkum hresstist yfir varnarleiknum þegar á leið eftir að mörkin komu nánast eins og á færibandi fyrstu 20 mínúturnar.  Haukar voru marki yfir í hálfleik, 14:13.

Sama var upp á teningnum í síðari hálfleik. Jafnt nánast á öllum tölum. Afturelding komst í tvígang tveimur mörkum yfir þegar liðið var manni eða mönnum fleiri. Haukar komu alltaf til baka. Adam Haukur Baumruk fékk rautt spjald fyrir brot eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik.

Áfram mátti vart á milli sjá liðanna allt til leiksloka. Ef eitthvað var þá var sóknarleikur Hauka markvissari á síðustu fimm mínútunum. Það kom hins vegar ekki í veg fyrir að Afturelding fékk tækifæri til að krækja í annað stigið í lokin. Þá varði Grétar Ari Guðjónsson, markvörður Hauka, skot Guðmundar Árna Ólafssonar, á síðustu sekúndum leiksins. Guðmundur Árni fékk þá opið tækifæri og fór inn úr hægra horninu. Nokkrum sekúndum áður var dæmd leiktöf á Hauka í þeirra síðustu sókn.

Guðmundur Árni skoraði sjö mörk fyrir Aftureldingu og var markahæstur. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var næstur með fjögur mörk. Atli Már Báruson var markahæstur Hauka með sjö mörk og Adam Haukur skoraði fjögur mörk.

Afturelding 23:24 Haukar opna loka
60. mín. Haukar tekur leikhlé - hálf mínúta eftir og Haukar með pálmann í höndunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert