„Kvennasportið er að verða hundleiðinlegt“

Sigurður Bragason.
Sigurður Bragason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV í Olísdeild kvenna, er ekki sáttur við þróunina kvennamegin í boltaíþróttunum, hann er orðinn pirraður á því að tvö lið séu langbest í hverri íþrótt fyrir sig og nefndi hann yfirburði Fram og Vals í handboltanum, Vals og KR í körfuboltanum og síðan Breiðabliks og Vals í fótboltanum.

Allt þetta og meira var meðal umræðuefna eftir stórt tap ÍBV í Vestmannaeyjum í dag gegn Valskonum sem komu sér í betri stöðu á toppi Olísdeildar kvenna í handknattleik.

„Valur er bara með betra lið en við, á öllum sviðum, ég er samt mjög fúll yfir því að tapa svona. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hélt að við værum betri, við vorum með fínan leik á móti KA/Þór síðast, ég hélt að við myndum sýna smá gæði. Það er ömurlegt að vera á heimavelli og tapa með nítján mörkum. Getumunurinn á liðunum er himinn og haf, þær eru með miklu betra lið en við erum með í dag, því miður, og ofan á það erum við með vængbrotið lið sem við megum ekki við.“

Eftir 36 mínútna leik voru einungis tvær búnar að skora fyrir ÍBV, þær Ásta Björt Júlíusdóttir og Sunna Jónsdóttir.

„Þetta segir allt sem segja þarf, við erum með unga leikmenn, í hægra horninu erum við með leikmann sem er að byrja sitt fyrsta tímabil, á línunni er leikmaður að byrja sitt fyrsta tímabil. Þær verða að fá sinn tíma, ég vildi fá meira frá Ester, sem er okkar besti leikmaður, en þær lögðu mikla áherslu á að stöðva hana. Breiddin er ekki meiri en þetta eins og staðan er,“ sagði Sigurður en þar á hann við Lindu Björk Brynjarsdóttur og Bríeti Ómarsdóttur, sem eru báðar 17 ára.

Þetta eru ekki leikmenn sem við erum að sækja

ÍBV er með tvo erlenda markmenn og tvo erlenda leikmenn sem spila fyrir utan, Sigurður segir umræðuna um komu þessara útlendinga til ÍBV oft vera á villigötum.

„Það var rosalega mikið talað um að við værum að fá fjóra erlenda leikmenn í liðið hjá okkur fyrir mótið, nefndu mér einn leikmann á Íslandi sem hefur verið besti leikmaður á Íslandi í kvennaboltanum. Það er kannski Florentina en ekkert eftir það. Pólsku stelpurnar okkar voru atvinnulausar og hringdu hingað, þær eru ekki að fá borgað hjá okkur, þær eru bara í vinnu hérna í Eyjum. Þetta eru ekki leikmenn sem við erum að sækja, þá þarf maður að fara í rosalega peninga, ég er ekki ánægður með þær samt. Ég var ánægður með hvernig pólski markvörðurinn byrjaði mótið, en síðan þá hefur sú pólska verið ágæt varnarlega, það er þó lítil hjálp í þeim því miður, við getum ekki beðið um mikið meira frá þeim. Þær eru bara að reyna sitt besta eins og við, þetta eru ekki leikmenn sem eru að fá einhverja 100.000 kalla hjá okkur,“ sagði Sigurður en mikill niðurskurður hefur farið fram í kvennadeildinni.

„Eins og við enduðum mótið erfiðlega þá eru teknir út leikmenn, besti leikmaðurinn í fyrra, Arna Sif, Karólína fer, Greta var búin að vera hér í fjögur ár og var mikilvægur leikmaður, við misstum landsliðsmarkvörðinn og unglingalandsliðsmarkvörðinn. Sandra Dís er síðan búin að spila tvær mínútur á þessu móti, hún puttabrotnaði eftir tvær mínútur í fyrsta leik. Liðið er síðan Sunna, Ester og Kristrún, þær eru eldri, Ester ákvað það bara um Þjóðhátíðina að vera með. Við erum með gjörsamlega nýtt lið og vitum það, 4. flokkurinn okkar er mjög góður, við erum með flottar stelpur í 3. flokki, U-liðið okkar er gott, þetta mun taka 2-3 ár. Þetta er alltaf spurning eins og í öðrum kvennaíþróttum, svo verða þær góðar og fara í Val,“ sagði Sigurður en hann hélt síðan áfram varðandi kvennaíþróttirnar í heild sinni.

„Það eru þrír Vestmannaeyingar þarna, allar mjög góðar og myndu nýtast okkur. Þetta er hundleiðinlegt og kvennasportið er að verða svo leiðinlegt, þetta er í fótboltanum og körfunni. Það eru alltaf öll lið í uppbyggingu, við erum í uppbyggingu núna, um leið og einhverjar geta þá eru þær farnar. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þetta sé rosalega skemmtilegt, það eru tveir úrslitaleikir í fótboltanum, Breiðablik og Valur. Í körfunni ertu með Val og KR sem eru einu leikirnir sem skipta máli, í handboltanum eru þetta Fram og Valur, hvað er gaman að þessu? Svo er bara talað um uppbyggingu endalaust, þetta eru stelpurnar, þær eru að búa til leiðinlegt mót, það er ekkert varið í þetta. Skemmtilegast í mótinu núna er 3. - 8. sætið, þar eru jöfn lið. Síðan eru allar í landsliðinu í hinum tveimur liðunum. Þetta verður að taka smá tíma hjá okkur núna, eða fara í það að finna pening og kaupa útlendinga, það er hin hliðin á þessu.“

ÍBV hefur verið að leika jafna leiki við liðin í kringum sig en tapaði niður forystu gegn KA/Þór í síðustu umferð og missti sigur niður í jafntefli gegn HK.

„Yfir því er ég mjög fúll, ef við værum með sex stig væri ég mjög sáttur, af því að við vorum betri en HK og betri en KA/Þór. KA fór í það að taka tvær úr umferð, þá komum við inn á þessa reynslu sem við vorum að tala um áðan, þessar ungu. Þær féllu á prófinu þá, en það fer í reynslubankann hjá þeim. Við áttum að vinna það, við erum ekki með jafngott lið og Valur eða Fram, þó við höfum ekki átt að tapa með 20 mörkum en þetta er keppni í stigum og við erum með of fá stig. Ef við værum með sex hefði ég verið ánægður en ég er það alls ekki og við verðum að passa okkur. Það er úrslitaleikur gegn Aftureldingu á laugardaginn, nú verð ég að passa upp á sálfræðina hjá stelpunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert