Svo sannarlega stutt á milli

Atli Már Báruson var markahæsti leikmaður Hauka gegn Aftureldingu í …
Atli Már Báruson var markahæsti leikmaður Hauka gegn Aftureldingu í kvöld með sjö mörk. Hér er eitt þeirra í uppsiglingu. Aftureldingarmennirnir Gunnar Kristinn Þórsson, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Einar Ingi Hrafnsson fylgjast með. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er einstaklega ánægður með liðsheildina hjá Haukum í þessari viðureign gegn sterku liði Aftureldingar. Að fara héðan með tvö stig er frábært,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari karlaliðs Hauka, eftir eins marks sigur á Aftureldingu í slag tveggja efstu liða Olís-deildar karla í handknattleik í kvöld.

„En það er svo sannarlega stutt á milli sigurs og ósigurs. Í síðustu umferð jafnaði ÍBV gegn okkur með marki á síðustu sekúndu leiksins en í kvöld varði Grétar Ari markvörður okkar lokaskot Aftureldingar á síðustu stundu. Það undirstrikar hvað litlu munar á liðunum í deildinni og hvað hvert atriði vegur þungt þegar upp er staðið.“

Með sigrinum endurheimtu Haukar efsta sæti deildarinnar á nýjan leik en þar vilja Haukar vera að sögn Gunnars.

Gunnar tók leikhlé þegar hálf mínúta var eftir og lagði upp ákveðið leikkerfi sem átti að enda með marki sem hefði þýtt að Haukar hefðu náð tveggja marka forskoti. Sóknin rann hins vegar út í sandinn án markskots þegar 14 sekúndur voru eftir af viðureigninni. „Það fór vissulega um mig þegar við misstum boltann en að sama skapi var ánægjulegt að sjá þegar Grétar varði lokaskotið og sigurinn var í höfn hjá okkur,“ sagði Gunnar sem taldi það hafa verið ákveðinn vendipunkt snemma í síðari hálfleik þegar Haukaliðið stóð af sér áhlaup Aftureldingar á kafla þegar Haukar voru einum og tveimur mönnum færri. Á þeim kafla fékk Ásgeir Örn Hallgrímsson m.a. tvöfaldan brottrekstur, þ.e. fjórar mínútur.

„Að við lifðum þann kafla af var mjög mikilvægt. Þarna hefðum við getað misst einbeitinguna og Aftureldingarliðið langt fram úr okkur. En við stóðumst álagið, héldum sjó. Þegar ég lít í baksýnisspegilinn þá var þetta vendipunktur leiksins af okkar hálfu,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert