Í sjokki eftir óvænt val - Hefði stolt spilað fyrir Ísland

Kristín Þorleifsdóttir er á leið til Japans.
Kristín Þorleifsdóttir er á leið til Japans. LJósmynd/@h65_dam

Kristín Þorleifsdóttir er óvænt á leið á heimsmeistaramótið í handbolta í Japan í lok þessa mánaðar. Hún var kölluð inn í sænska landsliðshópinn eftir að fyrirliðinn Sabina Jacobsen meiddist. Á sínum tíma kom til greina að Kristín spilaði fyrir íslenska landsliðið.

Kristín er dóttir Sigrúnar Andrésdóttur og Þorleifs Sigurjónssonar. Hún býr í Höör á Skáni og spilar hjá liði sem ber nafn bæjarins. Frammistaða hennar í vetur varð til þess að landsliðsþjálfari Svía, Henrik Signell, valdi þessa 21 árs gömlu vinstri skyttu í 18 manna HM-hóp sinn:

„Ég fæddist í Svíþjóð og hef búið hérna alla mína ævi en báðir foreldrar mínir eru frá Íslandi. Mamma flutti hingað um tvítugt og pabbi þegar hann var 25 ára held ég. En ég hef auðvitað heimsótt Ísland nokkrum sinnum og heimsótt ættingja mína þar,“ segir Kristín við mbl.is en handknattleikssamband Íslands hefur greinilega lengi vitað af henni:

„Ég var valin til æfinga hjá U16-landsliði Íslands fyrir fimm árum og kom þá til landsins, en var talin góð og fékk þá einnig að æfa með U18-landsliðinu. Ég velti því alveg fyrir mér að spila fyrir Ísland en ég hef búið í Svíþjóð alla mína ævi. Og þó að mig langi til þess að geta talað íslensku þá get ég það ekki alveg. En ég elska Ísland og það hefði fyllt mig stolti að spila fyrir Ísland. Það sama á við um Svíþjóð og nú hef ég valið að spila fyrir sænska landsliðið,“ segir Kristín, sem er auðvitað himinlifandi yfir að vera á leið til Japans þó að ekki sé víst að hún spili á HM:

„Ég var í sjokki þegar ég frétti að ég hefði verið valin. Ég er svo ótrúlega ánægð með að fá þetta tækifæri og geta fengið að sjá hvernig allt virkar hjá þeim bestu, og læra af atvinnukonum í íþróttinni. Þetta verður æðislegt. Við förum með 18 manna hóp og það verða bara 16 leikmenn á skýrslu hverju sinni, en ef eitthvað gerist hjá öðrum leikmönnum þá gæti ég fengið að spila,“ segir Kristín.

Kristín Þorleifsdóttir er skytta Höörs í sænsku úrvalsdeildinni. Liðið lék …
Kristín Þorleifsdóttir er skytta Höörs í sænsku úrvalsdeildinni. Liðið lék í forkeppni EHF-keppninnar í vetur en féll út í 2. umferð. Ljósmynd/h65.se
mbl.is