Sannfærandi bikarsigur Fram á Stjörnunni

Fram hafði betur gegn Stjörnunni í kvöld.
Fram hafði betur gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Fram tryggði sér sæti í átta liða úrslitum CocaCola-bikar kvenna í handbolta í dag með öruggum 28:18-sigri á Stjörnunni á útivelli í kvöld. Staðan í hálfleik var 14:11. 

Hildur Þorgeirsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fram og Steinunn Björnsdóttir fimm. Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Stefanía Theodórsdóttir skoruðu sex mörk hvor fyrir Stjörnuna. 

HK vann nauman 24:23-sigur á Aftureldingu í hinum úrvalsdeildarslag kvöldsins. Staðan í hálfleik var 14:12, Aftureldingu í vil en HK-ingar voru sterkari í seinni hálfleik. Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði átta mörk fyrir HK og Þóra María Sigurjónsdóttir gerði sex fyrir Aftureldingu. 

KA/Þór gerði góða ferð á Selfoss og vann 29:21-sigur, en Selfoss féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Katrín Vilhjálmsdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoruðu fimm mörk hver fyrir KA/Þór og Hulda Dís Þrastardóttir skoraði níu fyrir Selfoss. 

ÍR vann nauman 20:19-sigur á Gróttu á heimavelli en bæði lið leika í 1. deild. Ólöf Marín Hlynsdóttir skoraði tíu fyrir ÍR og Rut Bernódusdóttir gerði fjögur fyrir Gróttu. 

Fréttin verður uppfærð er úrslit úr leik Fylkis og Fjölnis verða ljós. 

mbl.is