Sannfærandi bikarsigur Fram á Stjörnunni

Fram hafði betur gegn Stjörnunni í kvöld.
Fram hafði betur gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Fram tryggði sér sæti í átta liða úrslitum CocaCola-bikar kvenna í handbolta í dag með öruggum 28:18-sigri á Stjörnunni á útivelli í kvöld. Staðan í hálfleik var 14:11. 

Hildur Þorgeirsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fram og Steinunn Björnsdóttir fimm. Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Stefanía Theodórsdóttir skoruðu sex mörk hvor fyrir Stjörnuna. 

HK vann nauman 24:23-sigur á Aftureldingu í hinum úrvalsdeildarslag kvöldsins. Staðan í hálfleik var 14:12, Aftureldingu í vil en HK-ingar voru sterkari í seinni hálfleik. Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði átta mörk fyrir HK og Þóra María Sigurjónsdóttir gerði sex fyrir Aftureldingu. 

KA/Þór gerði góða ferð á Selfoss og vann 29:21-sigur, en Selfoss féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Katrín Vilhjálmsdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoruðu fimm mörk hver fyrir KA/Þór og Hulda Dís Þrastardóttir skoraði níu fyrir Selfoss. 

ÍR vann nauman 20:19-sigur á Gróttu á heimavelli en bæði lið leika í 1. deild. Ólöf Marín Hlynsdóttir skoraði tíu fyrir ÍR og Rut Bernódusdóttir gerði fjögur fyrir Gróttu. 

Fréttin verður uppfærð er úrslit úr leik Fylkis og Fjölnis verða ljós. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert