Dómarinn gáttaður á heiðarleika Rúnars

Rúnar Kárason sýndi mikinn ungmennafélagsanda á miðvikudag.
Rúnar Kárason sýndi mikinn ungmennafélagsanda á miðvikudag. mbl.is/Hari

Dómari kveðst ekki hafa orðið vitni að öðrum eins íþróttaanda og Rúnar Kárason sýndi þegar Rúnar sagði að andstæðingur hans ætti ekki skilið að fá rautt spjald.

Tobias Ellebæk slæmdi hönd í höfuð Rúnars þegar þeir áttust við í toppslag Aalborg og Ribe-Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta á miðvikudag. Dómararnir Mads Hansen og Martin Gjeding stöðvuðu leikinn og gengu út fyrir hliðarlínu til að skoða atvikið á skjá, en á leiðinni stoppaði Rúnar þá til að segja þeim að Ellebæk ætti ekki skilið að fá rautt spjald.

„Þetta finnst mér sýna íþróttalegan heiðarleika út fyrir öll mörk. Hann hefði í rauninni getað kastað sér niður og látið eins og dramadrottning. Í staðinn sýnir hann íþróttaanda og þann mesta heiðarleika sem hægt er að sýna sem íþróttamaður,“ sagði Hansen dómari við TV 2 eftir leik, þar sem þeir Rúnar ræddu málið. Rúnar segist sjálfur búinn að fá sig fullsaddan af því að menn fiski andstæðinga sína út af með óheiðarlegum hætti.

„Hann hæfði mig vel í höfuðið en það var ekki með vilja. Mér fannst mikilvægt að dómararnir fengju að vita það. Hann kom ekki í mig með krepptan hnefa, hann hæfði mig óheppilega og mér finnst sanngjarnt að segja dómurunum frá því,“ sagði Rúnar.

„Ég er afskaplega pirraður yfir því að það sé orðið þannig í handbolta, að ef menn hoppa upp og það kemur smásnerting, þá reyni menn ekki að halda jafnvægi. Maður kastar sér bara niður og þá fær andstæðingurinn tveggja mínútna brottvísun. Mér finnst að menn eigi að spila af hörku en sanngirni,“ sagði Rúnar.

Hansen hefur ekki orðið vitni að öðru eins á sínum ferli: „Ég hef ekki upplifað þetta áður en handboltasamfélagið er mjög sanngjarnt svo ég er ekki mjög hissa á þessu. Það hefði verið erfitt að gefa rautt spjald eftir að Rúnar kom og sagði að þetta verðskuldaði bara tveggja mínútna brottvísun,“ sagði Hansen.

Rúnar og félagar þurftu að sætta sig við 30:27-tap og eru nú fjórum stigum á eftir Aalborg í toppbaráttunni. Rúnar skoraði fimm mörk í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert