Framarar tryggðu sér lygilegt jafntefli

Tandri Már Konráðsson í baráttunni í Garðabænum í kvöld.
Tandri Már Konráðsson í baráttunni í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan og Fram gerðu í kvöld ótrúlegt jafntefli í Olísdeild karla í handbolta, 26:26. Stjörnumenn voru þremur mörkum yfir þegar um mínúta var eftir en tókst þrátt fyrir það að kasta sigrinum frá sér í lokin. 

Eftir jafnræði fyrstu mínúturnar náðu Stjörnumenn þriggja marka forskoti, 10:7. Þá tók Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, leikhlé og Framarar skoruðu næstu fjögur mörk og komust yfir, 11:10.

Framarar héldu því forskoti út hálfleikinn og var staðan í leikhléi 12:11, Fram í vil. Seinni hálfleikurinn var hnífjafn til að byrja með og eftir nokkrar mínútur í honum var staðan 14:14. 

Stjörnumenn misstu tvo leikmenn af velli með brottvísun í stöðunni 17:16 og komust Framarar tveimur mörkum yfir í kjölfarið, 18:16. Þá tóku Stjörnumenn leikhlé og jöfnuðu fljótlega í 19:19. 

Tæpum tíu mínútum fyrir leikslok komust Stjörnumenn yfir, 21:20 og svo 26:23 þegar um mínúta var eftir. Stjörnumenn spiluðu þá með opið mark og þrisvar á um mínútu tókst leikmönnum Fram að stela boltanum og tryggja sér ótrúlegt jafntefli. 

Af einhverri óskiljanlegri ástæðu ákvað Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar að spila með opið mark, hvað eftir annað í lokin sem kostaði liðið. Rúnar verður að taka þetta tap á sig. 

Stjarnan 26:26 Fram opna loka
60. mín. Leik lokið Framarar skora þrjú mörk á um það bil mínútu og jafna leikinn. Hvers vegna voru Stjörnumenn að spila með markið autt í lokin!? Stjarnan var tveimur mörkum yfir og 30 sek eftir eða svo. Ég skil ekki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert