Þessi leikur var stórfurðulegur

Leó Snær Pétursson skoraði sjö mörk í kvöld.
Leó Snær Pétursson skoraði sjö mörk í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Leó Snær Pétursson, leikmaður Stjörnunnar, var í nokkru áfalli þegar mbl.is spjallaði við hann eftir 26:26-jafntefli við Fram í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. Stjörnumenn voru með 26:23-forskot þegar um mínúta var eftir en köstuðu leiknum frá sér í blálokin. 

„Þetta var stórfurðulegt. Þessi leikur í heildina var stórfurðulegur. Það er eins og við séum á hálfu tempói. Við vorum ekki að keyra eins og við viljum gera, slakandi á alltaf og ekki að spila okkar leik. Við náum ekki sama ákafa og í Selfoss leiknum og það er furðulegt að bara þá saman,“ sagði Leó, en Stjarnan gerði sjálfum sér svipaðan grikk gegn KA á dögunum. 

„Það býr miklu meira í þessu liði en við verðum að fara að getað klárað leiki. Það er vissulega betra að fá eitt stig en ekkert en við verðum að loka svona leikjum þegar við erum með pálmann í höndunum.

Þetta var svipað og á móti KA, þar sem við vorum líka með pálmann í höndunum en köstuðum þessu frá okkur. Menn voru að prófa bara eitthvað. Við eigum að vera með það reynslumikið lið að við eigum að loka svona leikjum og punktinn fyrir aftan strax, köttur út í mýri. Við þurfum að virkilega að læra af þessu.“

Stjörnumenn léku án markmanns í síðustu þremur sóknunum og í öll skiptin stálu Framarar boltanum og skoruðu. 

„Við erum búnir að æfa það og við erum með gæðin í það. Við eigum bara að loka þessum leik, þá er þetta ekki vandamál. Ég veit það ekki, ég spáði ekki alveg í það,“ sagði Leó Snær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert