Sveinn Aron rekinn frá Val

Sveinn Aron Sveinsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Val.
Sveinn Aron Sveinsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Val. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Handknattleiksmaðurinn Sveinn Aron Sveinsson var í dag rekinn frá Val í kjölfar þess að hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sjö mánuði skilorðsbundna, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á bílastæði við Sæmundargötu í Reykjavík í september fyrir tveimur árum. 

Var Sveinn einnig dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu 700 þúsund krónur í bætur. Sveinn viðurkenndi að hafa ráðist að manni sem féll til jarðar og þar sem hann lá á jörðinni sparkað ítrekað í höfuð hans. Fórnarlambið hlaut dreifða heilaáverka auk annarra áverka og blæðinga. 

Valur sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem kemur fram að ofbeldishegðun Sveins sé í algjörri andstöðu við allt sem Valur stendur fyrir og því allar forsendur fyrir samstarfi félagsins og leikmannsins brostið. Þar kemur einnig fram að Valur hafi fyrst frétt af málinu í fjölmiðlum. 

Sveinn lék sjö leiki með Val á tímabilinu og skoraði í þeim 15 mörk. Hann hafði alla tíð leikið með Val, að undanskildum nokkrum mánuðum með Aftureldingu. 

Yfirlýsinguna má sjá hér fyrir neðan:

Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Vals hefur fjallað um mál Sveins Arons Sveinssonar leikmanns meistaraflokks Vals í handknattleik, í kjölfar dóms sem hann fékk. Sú ofbeldishegðun sem leikmaðurinn játaði að hafa sýnt er í algjörri andstöðu við allt sem Valur stendur fyrir og hafa því allar forsendur fyrir samstarfi félagsins og leikmannsins brostið. Félaginu er því nauðugur einn sá kostur að rifta samningnum. Með birtingu fréttar um málið í fjölmiðlum fengu stjórnarmenn Vals fyrst vitneskju um þann verknað sem leiddi til hans.

mbl.is