Yrði draumur ef ég kæmist á EM

Gísli Þorgeir Kristjánsson.
Gísli Þorgeir Kristjánsson. Ljósmynd/Kiel

Landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður þýska liðsins Kiel, heldur í vonina um að geta spilað með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í janúar. Gísli varð fyrir því óláni að fara úr lið í vinstri öxlinni í leik gegn Rhein-Neckar Löwen í þýsku Bundesligunni á fimmtudaginn.

Kiel greindi frá því fyrir helgina að Gísli Þorgeir verði frá keppni í að minnsta kosti átta vik­ur en Evrópumótið hefst 10. janúar þar sem Ísland spilar leiki sína í Malmö í Svíþjóð.

Mbl.is sló á þráðinn til Gísla Þorgeirs í dag en ekki liggur enn þá ljóst fyrir hvort hann þurfti að gangast undir aðgerð eða ekki. Gísli hefur fengið sinn skammt af meiðslum en hann meiddist illa í hægri öxlinni í leik með FH gegn ÍBV í úrslitakeppninni 2017 sem endaði svo með því að hann gekkst undir aðgerð í febrúar á þessu ári og var frá keppni í hálft ár.

Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með Íslendingum gegn Frökkum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson í leik með Íslendingum gegn Frökkum. AFP

„Ég hitti lækna landsliðsins á morgun og þá verður tekin staðan á því hvort ég þurfi að fara í aðgerð eða ekki. Það hefur verið talað um að bataferlið taki átta vikur ef ég fer ekki í aðgerð en ég get ekki sagt með vissu núna hversu lengi ég verð frá fyrr en ég veit það. Ég vona bara það besta og það yrði draumur ef ég kæmist á EM,“ sagði Gísli Þorgeir, sem átti góða innkomu í leiknum við Löwen áður en hann meiddist.

„Ég rann fram fyrir mig og skall í gólfið og ég fann strax að eitthvað gaf sig í öxlinni. Þetta var mikið sjokk enda búinn að ganga í gegnum mikil meiðsli í hægri öxlinni og tilhugsunin um að missa af EM og vera aftur frá keppni í nokkra mánuði tók á mig. Sem betur fer var þetta þó vinstri öxlin. Það er vel hugsað um mig hérna hjá Kiel. Læknar liðsins ásamt læknum landsliðsins munu bera saman bækur sínar og meta hvað er best að gera fyrir mig sem handboltamann. Svo lengi sem ekkert annað kemur í ljós þá held ég vonina og reyni að vera bjartsýnn,“ sagði Gísli.

Gísli Þorgeir, sem er tvítugur að aldri, gekk í raðir Kiel frá FH í júlí á síðasta ári og gerði þriggja ára samning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert