Erum enn að vinna okkur af stað

Stiven Tobar Valencia lék vel fyrir Valsliðið í gegn KA. ...
Stiven Tobar Valencia lék vel fyrir Valsliðið í gegn KA. Hér er eitt fimm marka hans í uppsiglingu. mbl.is/Hari

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var kampakátur eftir fjórða sigur Vals í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld. Valur vann þá KA í Origo-höllinni, 31:23, í upphafsleik 10. umferðar deildarinnar.  Með sigrinum er Valsliðið komið upp í fjórða til sjötta sæti deildarinnar með 11 stig eins og Selfoss og FH sem eiga leik til góða á Valsmenn.

„Eftir góða byrjun á leiknum þá misstum við taktinn í sóknarleiknum, töpuðum boltann oft á einfaldan hátt og fengum fyrir vikið mörg mörk á okkur sem varð þess valdandi að KA-menn jöfnuðu metin. Ég var óánægður með þennan kafla í hálfleik en strákarnir bitu frá sér í þeim síðari og léku vel. Við vorum þéttir í vörninni og Hreiðar og Daníel vörðu mjög vel allan leikinn.

KA-menn reyndu hvað þeir gátu en okkur leið vel eins alltaf þegar okkur tekst að ná upp varnarleiknum á þann hátt sem við gerðum að þessu sinni.  Sóknarleikurinn varð beittari hjá okkur þegar á leið leikinn. Þannig að þegar upp er staðið er um góðan sigur að ræða. Þetta var erfiður leikur auk þess sem mikið hefur gengið á. Við erum enn að vinna okkur af stað eftir slæma byrjun í mótinu. Þess vegna var þessi fjórði sigur í röð mikilvægur. Nú erum við að nálgast þann stað í deildinni sem við viljum á þótt ekki séu við komnir í toppbaráttu,“ sagði Snorri Steinn sem heldur með sína menn til Austurríkis árla í fyrramálið þar sem Valsliðið mætir Bregenz í Áskoraendakeppni Evrópu á laugardag og sunnudag.

„Við vörum út nótt í erfitt verkefni gegn Bregenz. Ég hef aðeins farið yfir leik austurríska liðsins og tel eftir þá skoðun að við getum vel strítt leikmönnum Bregenz ef við náum góðum leikjum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson.

Þess má geta að Róbert Aron Hostert verður í leikmannahópi Valsliðsins sem fer til Austurríkis. Róbert hefur ekkert leikið með Valsliðinu í síðustu þremur leikjum í deildinni eftir að hafa farið úr lið á þumalfingri hægri handar. 

mbl.is