Sýndi óafsakanlegt dómgreindarleysi

Sveinn Aron Sveinsson.
Sveinn Aron Sveinsson. mbl.is/Hari

Sveinn Aron Sveinsson segir í yfirlýsingu sem birt er á Vísi í dag að hann harmi að Valur hafi dregist inn í umræðu um dóm sem hann hlaut í síðustu viku.

Sveinn Aron var í síðustu viku dæmd­ur í níu mánaða fang­elsi, þar af sjö mánuði skilorðsbundna, fyr­ir sér­stak­lega hættu­lega lík­ams­árás á bíla­stæði við Sæ­mund­ar­götu í Reykja­vík í sept­em­ber fyr­ir tveim­ur árum. 

Sveinn var einnig dæmd­ur til að greiða fórn­ar­lambi sínu 700 þúsund krón­ur í bæt­ur. Sveinn viður­kenndi að hafa ráðist að manni sem féll til jarðar og þar sem hann lá á jörðinni sparkað ít­rekað í höfuð hans. Fórn­ar­lambið hlaut dreifða heila­á­verka auk annarra áverka og blæðinga. 

Valur sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem kom fram að félagið hafi rift samning sínum við Svein Aron.

Í yfirlýsingu sem birt er á Vísi segir Sveinn Aron:

„Ég harma að Valur hafi dregist inn í umræðu um dóm sem ég hlaut í síðustu viku vegna líkamsárásar sem átti sér stað fyrir meira en tveimur árum síðan.

Allan minn íþróttaferil hef ég lagt hart að mér fyrir Val, þar sem hjartað mitt hefur slegið undanfarin tuttugu ár. Á þeim tíma hef ég gengið í gegnum hæðir og lægðir með félaginu og óska þess heitast að þótt samstarfi mínu við félagið sé nú lokið verði sigranna minnst sem við náðum í yngri flokkum sem og í meistaraflokki þar sem Íslandsmeistaratitillinn 2017 stendur hæst.

Eftir að hafa hampað titlinum ákvað ég að leggja skóna á hilluna og var því ekki leikmaður Vals þegar ég sýndi óafsakanlegt dómgreindarleysi og ósæmilega hegðun, sem ég viðurkenndi skýlaust fyrir dómi og tek núna út refsingu fyrir. Sú byrði mín á ekki að skyggja á íþróttafélagið mitt og stuðningsmenn þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert