„Handbolti sem spilaður var í gamla daga“

Sebastian Alexandersson.
Sebastian Alexandersson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hugur minn er fyrst og fremst hjá markmanninum okkar, sem gerði ekkert rangt. Hún ásakar sjálfa sig og ég held að allir leikmenn myndu gera það. Þetta er náttúrulega eitthvað sem á ekki að geta gerst en það eru svo mörg önnur atriði sem hægt er að tína til á þessum lokakafla, sem hægt er að horfa á líka. Þetta náttúrulega lítur verst út” sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnukvenna í Olís-deildinni í handbolta eftir leik KA/Þórs og Stjörnunnar í kvöld.

Sigurmark KA/Þórs var skorað yfir allan völlinn á lokasekúndunum og markvörður Stjörnunnar kominn aðeins of langt fram völlinn.

„Annars var þetta mjög erfiður leikur. Það var leyfð allt of mikil harka, á báða bóga. Það var algjör skortur á línu hjá dómurunum. Mér fannst þeir ekki eiga góðan da gen ég er, langt því frá, að kenna þeim um úrslitin. Þeir náðu sér bara ekki á strik í dag. Sóknarleikurinn gekk brösulega. Við erum í vandræðum. Þórhildur meiðist og Þórey er að spila meidd. Liðið er pínu lemstrað en það afsakar ekki neitt því við erum með nógu marga leikmenn til að klára þetta og við gátum það. Færanýtingin er ekki nógu góð. Varnaleikurinn hjá okkur var enn og aftur frábær. Ef allt hefði verið eðlilegt þá hefði þetta átt að vera þriðji deildarleikurinn í röð sem fer 22:22. Ég hefði alveg þegið það, svona eftir á. Eina liðið sem var búið að vinna okkur í vetur var Fram. Þrátt fyrir allt þá finnst mér við hafa sýnt frábæra frammistöðu að mörgu leyti. Við þurftum að tækla mörg viðfangsefni í leiknum og mér fannst við gera það vel.“

Það var dálítið einkennandi í báðum liðum að þau voru að tapa mörgum boltum í sóknarleiknum. Var það harkan sem skýrir það?

„Mér fannst það. Miðað við reglurnar og þær áherslur sem verið er að dæma eftir þá fannst mér of mikil harka, sem leikmenn eru ekki vanir. Því fyldi m.a. tilfinningasemi og æðubunugangur sem kallaði á óvenjumörg mistök. Þetta er nú handbolti sem spilaður var í gamla daga og ég fíla hann. Leikmenn í dag þekkja þetta ekki og bregðast kannski ekki nógu vel við í þessum aðstæðum“ sagði Sebastian við mbl.is í KA-heimilinu. 

mbl.is