Dramatískur sigur Fram í Vestmannaeyjum

Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram.
Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkonur unnu eins marks sigur 23:24 í Vestmannaeyjum þegar liðin mættust í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. ÍBV leiddi leikinn lengstum en það var ekki nóg á lokakaflanum, þar skein reynsla Fram í gegn og sigla þær heim í kvöld með tvö stig, nema þær taki flugið með Flugfélaginu Erni.

Eyjakonur voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu að honum loknum 13:12. Framkonur náðu nokkrum sinnum forystunni og voru öflugar í byrjun þegar Ragnheiður Júlíusdóttir lék virkilega vel.

Markvarsla Eyjakvenna var til fyrirmyndar en Marta Wawrynkowska varði frábærlega í fyrri hálfleik. Sunna Jónsdóttir átti alveg frábæran leik og þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hún óð áfram allan tímann.

Í seinni hálfleik var leikurinn jafn og skemmtilegur allan tímann en Eyjakonur leiddu lengi vel. Á síðustu tíu mínútunum var allt í járnum og ljóst að minnstu mistök gætu kostað liðin sigurinn.

Framkonur tóku leikhlé þegar það voru 40 sekúndur eftir, þá var staðan jöfn og markmið Framara að fá eitt gott mark og standa sína gríðarsterku vörn einu sinni enn. Það gekk allt samkvæmt plani því að Steinunn Björnsdóttir skoraði sigurmarkið þegar 20 sekúndur voru eftir.

ÍBV 23:24 Fram opna loka
60. mín. Katrín Ósk Magnúsdóttir (Fram) varði skot Ver frá Ester, gæti reynst mikilvæg varsla.
mbl.is