Ég hef alla vega tröllatrú á þessu

Sunna Jónsdóttir.
Sunna Jónsdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sunna Jónsdóttir, leikmaður ÍBV, átti virkilega góðan leik þegar gamla lið Sunnu og topplið Fram, kom í heimsókn til Vestmannaeyja. Fram vann leikinn með einu marki og gerði Steinunn Björnsdóttir sigurmarkið þegar 20 sekúndur voru eftir.

„Ég er auðvitað ánægð með spilamennskuna og ég er stolt af liðinu, við börðumst eins og ljón allan leikinn og þetta verður enn þá meira svekkjandi fyrir vikið. Þegar upp er staðið erum við að gera margt mjög gott.“

Ef maður skoðar gengi liðanna á tímabilinu er það nokkuð óvænt að leikurinn hafi verið eins jafn og raun ber vitni.

„Já, þetta er óvænt og ekki óvænt, það getur allt gerst í handbolta og í íþróttum yfir höfuð. Hver og einn leikur lifir sínu lífi, við börðumst vel og spiluðum á okkar styrkleikum, þá er ótrúlega svekkjandi að hafa ekki fengið neitt út úr þessu.“

Aðspurð hvað það var helst sem fór úrskeiðis undir lokin sagðist Sunna ekki endilega hafa svarið við því.

„Við þurfum aðeins að skoða hvað klikkaði í lokin, ég veit ekki hvort það var pínu reynsluleysi og svo opnumst við aðeins varnarlega. Þær eru með frábæra leikmenn og mjög reynslumikla leikmenn og klára þetta í lokin.“

Sunna sjálf átti mjög góðan leik í dag, fannst henni hún þurfa að sanna eitthvað fyrir sínu gamla liði?

„Ég á margar góðar vinkonur í Fram og Fram er frábært félag, ég er búin að taka of langan tíma í að koma mér í stand eftir barnsburð og meiðsli og svona. Vonandi er þetta það sem koma skal hjá mér og ég ætla mér að halda áfram að vinna í mínum málum.“

Eyjakonur töpuðu á svekkjandi hátt í miðri viku gegn Haukum eftir að hafa leitt þann leik lengi vel í bikarnum. Sunna er ánægð með að það hafi ekki setið í leikmönnum liðsins.

„Ég var mjög stolt af því að þetta hafi ekki setið í okkur, þar sem það var ótrúlega svekkjandi. Eins og ég sagði áðan verðum við að halda áfram að vinna í okkar málum, halda kúlinu og hafa gaman af þessu. Við þurfum líka að hafa trú á þessu, ég hef alla vega tröllatrú á þessu.“

Vörn og markvarsla ÍBV var í góðum takti í dag, auk þess tók Marta, markvörður liðsins, nokkur dauðafæri. Marta, sem kennir pólsku í grunnskólanum í Vestmannaeyjum hefur átt nokkra mjög góða leiki.

„Marta er frábær og ótrúlega dugleg, hún vinnur vel fyrir leiki í því að skoða leikmenn, ég held það sé mjög erfitt að koma inn í nýja deild þar sem þú þarft að kynnast leikmönnum, mér fannst Harpa einnig frábær fyrir framan vörnina hjá okkur. Eftir á að hyggja erum við að bæta okkar leik mikið, ég er bjartsýn á framhaldið, miðað við það hvernig við byrjuðum mótið,“ sagði Sunna en Ásta Björt Júlíusdóttir átti nokkrar neglur í dag auk þess sem Sandra Dís Sigurðardóttir er að komast inn í liðið eftir meiðsli.

„Þetta lítur betur út, við þurfum að auka breiddina með því að koma mönnum inn í þetta, við þurfum að spila á þeim styrkleikum sem hver og einn hefur. Við erum með marga mjög flotta leikmenn í liðinu, við þurfum bara að púsla þessu saman en þetta krefst mikillar þolinmæði, við verðum að hafa trú á þessu,“ sagði Sunna að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert