Við þorðum ekki alveg

Elías Már Halldórsson, þjálfari HK.
Elías Már Halldórsson, þjálfari HK. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elías Már Halldórsson, þjálfari HK-inga í Olís-deild karla, kaus að líta á björtu hliðarnar eftir tap sinna manna í Vestmannaeyjum í dag. HK-ingar spiluðu vel í síðari hálfleik en hræðilegur kafli liðsins í fyrri hálfleik sem Eyjamenn unnu 13:1, skemmdi leikinn.

„Ég er svekktur með þennan kafla í fyrri hálfleik þar sem við missum þá tíu mörkum fram úr okkur, það var slæmur kafli. Við vorum klaufar og urðum passívir, það situr í mér að við misstum þá svona langt fram úr okkur. Það er mjög erfitt að éta upp tíu marka forskot í Eyjum. Þetta var of mikið, við létum reka okkur út af fyrir klaufaleg brot, við þorðum ekki alveg og þetta gerist of oft hjá okkur,“ sagði Elías en hann sagði liðið vera að reyna að stytta þessa kafla þar sem andstæðingar liðsins hafa gengið á lagið.

„Þessir kaflar sem eru að fara með leikina hjá okkur eru kannski kaflar þar sem við missum hausinn, við þorum ekki að fara í árásirnar og skotin verða lélegri. Við erum síðan að fá hraðaupphlaup í bakið, en ég gef strákunum mikið hrós fyrir hvernig þeir komu inn í seinni hálfleikinn sem við vinnum með fjórum mörkum. Við erum í þeirri stöðu að við verðum að taka þessa litlu sigra sem við erum að ná og byggja ofan á það, ÍBV er með mjög gott lið og það er engin skömm að tapa fyrir þeim hér í Eyjum.“

Elías segir að liðið hafi í raun sett upp annan leik í hálfleik.

„Við töluðum um það í hálfleik að við værum að vinna í lausnum, við töluðum saman um hvað við gætum lagað og gert betur. Mér fannst liðið svara því kalli mjög vel, það er það sem þetta snýst um hjá okkur. Við erum með ungt og óreynt lið, mikið af meiðslum og erum nýliðar, þetta er allt í bland,“ sagði Elías en Blær Hinriksson og Ásmundur Atlason eru báðir frá vegna meiðsla.

Jóhann Birgir Ingvarsson byrjaði leikinn virkilega vel en hann kom á láni til HK frá FH-ingum fyrr í mánuðinum. Síðan virtist slokkna á honum en Elías vill meina að hann hafi koðnað niður með liðinu.

„Jói er auðvitað virkilega sterkur skotmaður og karakter, hann mun hjálpa okkur í gegnum þessi vandræði sem við erum í, hann koðnaði kannski aðeins niður með liðinu eftir að hann byrjaði vel.“

Þorgeir Bjarki Davíðsson er hornamaður að upplagi en hann spilaði frábærlega í skyttunni í dag í seinni hálfleik, þar skilaði hann fimm mörkum og sex stoðsendingum.

„Toggi er frábær liðsmaður, hann tekur þau hlutverk sem hann fær, hann stóð sig frábærlega í seinni hálfleik í dag, skoraði góð mörk og var með stoðsendingar, hann er líka jákvæður karakter sem kemur inn með jákvæða orku sem skiptir okkur miklu máli.“

Það eru margir sem velta því fyrir sér hvort HK muni nokkuð vinna leik í deildinni á leiktíðinni, hefur Elías einhverjar áhyggjur af því?

„Ég hef eiginlega ekki haft tíma til að hafa áhyggjur af því, ég er bara að einbeita mér að næsta leik, við tökum einn leik fyrir í einu. Ég hef ekki áhyggjur af því, ef að það gerist þá erum við greinilega ekki nógu góðir, auðvitað ætlum við okkur að taka einhver stig en það þarf að fara að gerast.“

Næsti deildarleikur HK er á móti Aftureldingu en liðið spilar við Stjörnuna í bikarnum í miðri viku.

„Ég vil sjá framhald af þessum seinni hálfleik í dag, ég vil sjá að menn séu óhræddir við að láta vaða og haldi þessum kjark sem við höfðum í seinni hálfleik í dag. Við þurfum að halda þessu í 60 mínútur þá eigum við alveg möguleika, við viljum byggja ofan á það góða í dag og slíta það slæma frá,“ sagði Elías að lokum en HK er með 0 stig á botni deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert