Hreiðar með stórleik þegar Valur fór áfram

Hreiðar Levý Guðmundsson átti stórleik í marki Valsmanna.
Hreiðar Levý Guðmundsson átti stórleik í marki Valsmanna. mbl.is/Hari

Valsmenn eru komnir áfram í fjórðu umferð Áskorendabikars Evrópu í handknattleik eftir stórsigur gegn austurríska liðinu Bregenz í síðari leik liðanna í Rieden-Vorkloster í Bregenz í dag. Leiknum lauk með 31:21-sigri Vals en fyrri leik liðanna í gær í Bregenz, lauk með 31:31-jafntefli, og Valsmenn fara því áfram í næstu umferð.

Valsmenn náðu strax frumkvæðinu í leiknum og náðu mest níu marka forskoti í fyrri hálfleik, 14:5. Bregenz tókst að laga stöðuna fyrir hálfleik og leiddu Valsmenn með sjö mörkum í hálfleik, 17:10. Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn eins og hann fyrri og náðu mest tólf marka forskoti. Bregenz tókst aldrei að koma til baka og Valsmenn fögnuðu öruggum sigri.

Hreiðar Levy Guðmundsson átti stórleik í marki Valsmanna og varði 16 skot. Þá voru þeir Finnur Ingi Stefánsson og Agnar Smári Jónsson atkvæðamestir í liði Valsmanna með sex mörk hvor. Anton Rúnarsson átti einnig mjög góðan leik og skoraði fimm mörk fyrir Valsmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert