Rándýr brottvísun undir lokin

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, messar yfir sínum mönnum í leiknum …
Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, messar yfir sínum mönnum í leiknum við Stjörnuna í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, var ekki á þeirri skoðun að FH-liðið hafi mátt þakka fyrir annað stigið úr leik sínum við Stjörnuna í lokaleik 10.umferðar Olís-deildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld. Birgir Már Birgisson jafnaði metin fyrir FH þegar fimm sekúndur voru til leiksloka. „Við vorum með yfirhöndina þegar skammt var til leiksloka og stöðu til að vinna leikinn en við fórum illa að ráði okkar. Það er rándýrt að fá á sig brottvísanir á síðustu mínútum í jöfnum leikjum,“ sagði Sigursteinn.

Einar Rafn Eiðsson, leikmaður FH, fékk tveggja mínútna brottrekstur  þegar ríflega tvær mínútur voru til leiksloka fyrir að leggja ekki boltann rétt frá sér eftir að knötturinn var dæmdur af honum í sókn.  „Það er orðið þreytt að afsaka þetta því stigin eru dýr sem höfum hugsanlega tapað á svona atvikum,“ sagði Sigursteinn.

FH-ingar voru fjórum mörkum undir að loknum fyrri hálfleik en með breytingum á vörninni í upphafi síðari hálfleik tókst að slá vopnin úr höndum Stjörnumanna með þeim afleiðingum að FH jafnaði metin.  „Vörnin var slök hjá okkur í fyrri hálfleik þótt að ljóst væri að menn væri að leggja sig fram.  Stundum ganga hlutirnir ekki upp þrátt fyrir að vilji sé fyrir hendi. Sóknarleikurinn var hinsvegar í lagi af okkar hálfu. Eftir breytingarnar í síðari hálfleik þá náðum við að halda Stjörnuliðinu betur niðri og það skoraði aðeins níu mörk. Ég var ánægður með baráttuviljann í liðinu en er vonsvikinn yfir að hafa ekki  náð í bæði stigin,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, í samtali við mbl.is.

mbl.is