Sigvaldi yfirgefur Elverum í sumar

Sigvaldi Björn Guðjónsson (29) gæti verið á leið til stórliðs …
Sigvaldi Björn Guðjónsson (29) gæti verið á leið til stórliðs á næsta tímabili. Ljósmynd/Elverum

Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik, mun yfirgefa herbúðir norska liðsins Elverum næsta sumar. Sigvaldi tjáði Morgunblaðinu í gær að hann myndi ekki semja aftur við norska liðið og hygðist reyna sig í sterkari deild.

Samningur hans rennur út í sumar en í gær greindi Nettavisen frá því að Sigvaldi gæti farið til liðs sem hefði komist í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu á síðustu árum.

„Ég mun fara en veit ekki alveg hvert. Það kemur í ljós. Áhugi er fyrir hendi hjá nokkrum liðum og það er ekki vandamál,“ sagði Sigvaldi við Morgunblaðið í gær en sagðist ekki vera búinn að gera upp við sig hvort hann vildi ganga frá sínum málum fyrir eða eftir EM landsliða í janúar.

Skoraði 18 mörk í leik

Sigvaldi átti þvílíkan stórleik í undanúrslitum bikarkeppninnar í Noregi á dögunum að varla eru dæmi um annað eins hjá Íslendingi erlendis. Skoraði þá 18 mörk gegn Halden í leik sem Elverum vann 32:29. Hvað gekk eiginlega á?

„Það er góð spurning. Þetta var einhvern veginn mjög steikt. Ég klúðraði til dæmis fyrsta skotinu og hitti ekki markið. En svo komu mörkin jafnt og þétt og ég hafði skorað 11 mörk að loknum fyrri hálfleik. Þá hélt ég að þetta væri búið en andstæðingarnir héldu áfram að leyfa mér að fara inn úr horninu og ég hélt áfram að skora,“ sagði Sigvaldi, sem skoraði sex mörk úr víti en ellefu mörk komu úr horninu. „Ég fékk tvö hraðaupphlaup í leiknum og klúðraði öðru þeirra.“

Nánar er rætt við Sigvalda Björn í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert