Gera sér vonir um að Ederson spili gegn Chelsea

Ederson.
Ederson. AFP

Englandsmeistarar Manchester City vonast til að geta teflt brasilíska markverðinum Ederson fram þegar liðið tekur á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Ederson hefur glímt við meiðsli og hefur ekki spilað síðustu leiki City-liðsins en hann var mættur á æfingu í dag og bindur Pep Guardiola, stjóri Englandsmeistaranna, vonir við að Brasilíumaðurinn geti staðið á milli stanganna á laugardaginn. Hann hefur haldið hreinu í fimm af þeim ellefu leikjum sem hann hefur varið mark Manchester City.

Chelsea er í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig en Manchester City er sætinu fyrir neðan með 25 stig.

mbl.is