Íslendingarnir sterkir í óvæntum sigrum

Janus Daði Smárason hefur leikið gríðarlega vel með Álaborg á …
Janus Daði Smárason hefur leikið gríðarlega vel með Álaborg á leiktíðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dönsku meistararnir í Álaborg unnu glæsilegan 32:29-útisigur á þýsku meisturunum í Flensburg í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Janus Daði Smárason átti afar góðan leik fyrir Álaborg. 

Selfyssingurinn skoraði sjö mörk og var markahæstur í sínu liði ásamt Sebastian Barthold og Henrik Møllgaard. Með sigrinum tryggði Álaborg sér fjórða sæti A-riðils. Álaborg vann báðar viðureignir sínar við Flensburg í riðlakeppninni og endar með tíu stig, þremur meira en þýska liðið. 

Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði sex mörk fyrr norska liðið Elverum í 37:26-stórsigri á Celje Lasko frá Slóveníu. Var hann markahæstur ásamt þremur öðrum liðsfélögum. Sigurinn var sá fyrsti og eini hjá Elverum í keppninni í ár og er liðið fallið úr leik með þrjú stig í A-riðli. Celje er komið áfram með sex stig. 

mbl.is