Serbar og Rússar með fullt hús stiga

Zeljka Nikolic skorar fyrir Serba gegn Kúbu í leik liðanna …
Zeljka Nikolic skorar fyrir Serba gegn Kúbu í leik liðanna í morgun. Ljósmynd/IHF

Holland, Rússland og Serbía unnu örugga sigra í leikjum sínum á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í Kumamoto í Japan í morgun.

Hollendingar, sem hafa komist í undanúrslit á tveimur síðustu mótum, sigruðu Angóla 35:28 í A-riðli keppninnar en þær hollensku töpuðu með sex marka mun fyrir Slóvenum í fyrstu umferðinni. Lois Abbingh skoraði 11 mörk fyrir Hollendinga og Azenaide Carlos gerði 9 fyrir Angóla sem tapaði með sjö marka mun fyrir Serbum í fyrstu umferð.

Serbar eru með 4 stig í A-riðli eftir auðveldan sigur á Kúbu, 46:27. Allir leikmenn Serba skoruðu í leiknum og engin meira en sex mörk.

Noregur, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, mætir Slóveníu í síðasta leik dagsins í A-riðli klukkan 11.30.

Rússland sigraði Argentínu, 35:22, í D-riðli í morgun og rússneska liðið er með 4 stig eftir tvo leiki en Argentína er án stiga. Olga Gorshenina skoraði mest fyrir Rússa, 5 mörk.

mbl.is