Þær norsku byrja með látum á HM

Þórir Hergeirsson
Þórir Hergeirsson AFP

Þórir Hergeirsson og hans konur í norska landsliðinu unnu stórsigur á HM í handknattleik í Japan í dag.

Noregur mætti Slóveníu og vann með sextán marka mun 36:20 og hefur liðið unnið fyrstu tvo leiki sína í A-riðli keppninnar með miklum mun. Noregur vann Kúbu í fyrsta leiknum með þrjátíu og eins marks mun, 47:16, og er því með 47 mörk í plús eftir tvo leiki. 

Marit Rosberg Jacobsen skoraði 8 mörk fyrir Noreg og þær Ingvild Kristiansen Bakkerud og Camilla Herrem 6 mörk hvor. Leikið var í borginni Kumamoto en þar gerðu Íslendingar garðinn frægan á HM 1997. 

Serbía hefur einnig unnið fyrstu tvo leiki sína í riðlinum en þessi lið mætast á morgun. Holland og Slóvenía eru með 2 stig en Angóla og Kúba án stiga.

Leikstjórnandinn Stine Bredal Oftedal í leiknum í dag.
Leikstjórnandinn Stine Bredal Oftedal í leiknum í dag. Ljósmynd/IHF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert