Loksins sigur og þá var hann risastór

Frakkland á heimsmeistaratitil að verja í Kumamoto.
Frakkland á heimsmeistaratitil að verja í Kumamoto. Ljósmynd/IHF

Frönsku heimsmeistararnir í handknattleik kvenna unnu loksins leik á heimsmeistaramótinu í Kumamoto í Japan en fyrir stundu lauk leik þeirra gegn Ástralíu. Þar var um gríðarlega yfirburði að ræða, eins og búast mátti við, og lokatölur urðu 46:7.

Franska liðið er þá komið með þrjú stig eftir þrjá leiki og er í hörkubaráttu við Dani og Þjóðverja um tvö sæti í milliriðli keppninnar eins og staðan er núna. Suður-Kórea stendur best að vígi með 5 stig og Þjóðverjar hafa ekki tapað stigi enn en þeir eru með 4 stig og mæta Dönum á eftir. Danir eru líka taplausir með 3 stig.

Angóla gerði sér lítið fyrir og vann stórsigur á Slóveníu, 33:24, en Slóvenar höfðu komið mjög á óvart með sigri á Hollendingum í fyrstu umferð. Angóla er með 2 stig í A-riðli þar sem flest stefnir í að Noregur, Serbía og Holland fari áfram. Noregur mætir Serbíu á eftir.

Rúmenar unnu nauman sigur á Kasakstan, 22:20, en eru með fjögur stig í þriðja sæti C-riðils eftir þrjár umferðir. Spánn og Svartfjallaland eru með 6 stig í efstu sætunum en Ungverjar með 2 stig í fjórða sætinu. Kasakstan og Senegal eru án stiga.

Argentína fékk sín fyrstu stig í D-riðli með því að sigra Kína, 34:28. Þar er nokkuð ljóst að Rússland, Svíþjóð og Japan fara áfram.

mbl.is