Ómars Inga nýtur ekki við en Alexander snýr aftur

Alexander Petersson er mættur aftur í landsliðið.
Alexander Petersson er mættur aftur í landsliðið. Adam Jastrzebowski / Foto Olimpik

Þau tíðindi urðu í gær að Alexander Petersson, einn af ólympíuverðlaunahöfunum frá 2008, gefur kost á sér í landsliðið í handknattleik á nýjan leik. Lék hann síðast landsleik á EM í Póllandi árið 2016. Alexander er einn þeirra 28 leikmanna sem HSÍ sendir inn til mótshaldara en sá hópur var gerður opinber í gær.

Alexander var í stóru hlutverki á Ólympíuleikunum 2008 og á EM 2010 þegar Ísland vann til bronsverðlauna. Var hann kjörinn Íþróttamaður ársins árið 2010. Alexander er 39 ára gamall en leikur með einu besta liði Þýskalands, Rhein Neckar Löwen, og ætti að styrkja íslenska landsliðið umtalsvert. Alexander gæti nýst mjög vel í vörninni en hann ræður vel við það varnarafbrigði sem Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari vill nota og hefur látið liðið spila.

Innkoma Alexanders nú kemur á góðum tímapunkti því Ómar Ingi Magnússon er enn frá handknattleiksiðkun vegna höfuðáverka og ljóst að hann verður ekki með á EM. Ómar hefur leikið á síðustu þremur stórmótum en á HM í Þýskalandi í janúar var Teitur Örn Einarsson einnig í hópnum sem skytta hægra megin. Viggó Kristjánsson gæti barist um sæti í EM-hópnum þegar þar að kemur en hann hefur spjarað sig vel í þýsku Bundesligunni. Viggó fékk tækifæri gegn Svíum í vináttulandsleikjunum í október. Kristján Örn Kristjánsson sem raðar inn mörkunum hér heima er einnig í 28 manna hópnum og Alexander er því einn fjögurra í þeirri stöðu sem stendur. Rúnar Kárason gaf ekki kost á sér.

Einn nýliði

Einn leikmaður í hópnum hefur ekki leikið A-landsleik en það er Elvar Ásgeirsson sem eins og Viggó er á sínu fyrsta tímabili í þýsku Bundesligunni. Elvar er skytta vinstra megin en þar eru einnig tveir af máttarstólpum liðsins síðustu árin: Aron Pálmarsson og Ólafur Andrés Guðmundsson.

Sjáðu greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert