Danir sendu heimsmeistarana heim

Lærke Nolsoe Pedersen fagnar marki í leiknum við Frakka.
Lærke Nolsoe Pedersen fagnar marki í leiknum við Frakka. AFP

Heimsmeistarar Frakka eru úr leik í baráttunni um heimsmeistaratitil kvenna í handknattleik í Japan eftir ósigur gegn Dönum í hreinum úrslitaleik liðanna í síðasta leik B-riðils, 20:18.

Staðan í hálfleik var 9:7 fyrir Dani sem komust fjórum mörkum yfir um miðjan síðari hálfleik og náðu að halda út eftir æsispennandi lokamínútur. Stine Jørgensen tryggði sigurinn með tuttugasta markinu úr vítakasti þegar 10 sekúndur voru til leiksloka.

Jørgensen var atkvæðamest í danska liðinu með 7 mörk og Anne Mette Hansen skoraði 5. Sandra Toft varði 15 skot í danska markinu og var með 47 prósent markvörslu. Hjá Frökkum var Alexandra Lacrabere markahæst með 6 mörk.

Danmörk fer því í milliriðil ásamt Suður-Kóreu sem vann riðilinn og Þýskalandi sem varð í öðru sæti og mætir Hollandi, Noregi og Serbíu sem fóru áfram úr A-riðlinum.

Franska liðið þarf hins vegar að gera sér að góðu að fara í keppnina um Forsetabikarinn en hann hreppir það lið sem endar í þrettánda sæti mótsins.

Orlane Kanor reynir skot að marki Dana í leiknum í …
Orlane Kanor reynir skot að marki Dana í leiknum í dag. AFP
mbl.is