Serbar komust áfram eftir hörkuleik

Serbar fara áfram eftir sigur á Slóvenum.
Serbar fara áfram eftir sigur á Slóvenum. Ljósmynd/IHF

Serbar náðu þriðja sætinu í A-riðli heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik með því að sigra Slóvena í hreinum úrslitaleik um það í Japan í morgun, 29:27, og komast þar með áfram í milliriðil ásamt Noregi og Hollandi.

Kristina Liscevic skoraði tvö síðustu mörk leiksins og tryggði serbneska liðinu sigur en þær Sladana Pop-Lazic með 8 mörk og Jelena Lavko með 7 voru markahæstar hjá Serbum. Tjasa Stanko skoraði 10 mörk fyrir Slóvena.

Noregur er með 8 stig, Holland 6 og Serbía 6 en Noregur og Holland mætast í síðasta leik riðilsins í dag. Þessi lið verða í milliriðli með Suður-Kóreu, Þýskalandi og annaðhvort Frakklandi eða Danmörku sem mætast í hreinum úrslitaleik í dag.

Spánn vann Svartfjallaland í hörkuleik, 27:26, og vann þar með C-riðilinn en bæði lið voru með fullt hús stiga fyrir leikinn.

Japan tryggði sér sæti í milliriðli með því að vinna Kína með yfirburðum, 35:18, og fylgir Rússlandi og Svíþjóð áfram úr D-riðlinum.

Brasilía vann Ástralíu 31:9 og Senegal vann Kasakstan 30:20.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert