Erum að falla í tæknifeilapyttinn

Kári Kristján Kristjánsson, ÍBV.
Kári Kristján Kristjánsson, ÍBV. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Eyjamenn unnu sér inn eitt stig úr erfiðri stöðu gegn Fram í Olísdeildinni í handbolta Vestmannaeyjum í dag en gestirnir leiddu lengi vel með þremur mörkum. Kári Kristján Kristjánsson fyrirliði liðsins sagði margt hafa vantað upp á í leik liðsins. Leiknum lauk með jafntefli, 23:23.

„Við verðum að vera ánægðir með þetta stig, því að þetta leit orðið mjög illa út. Við þurftum að sækja einhver þrjú mörk á undir tveimur mínútum, við gerðum það og þetta var virkilega gott. Við erum að falla í tæknifeilapyttinn, við missum of mikið af boltum og þurfum að vera mun skarpari í hröðum upphlaupum.“

Spilamennska liðsins í leiknum svipaði til spilamennsku Eyjamanna í mörgum leikjum á síðustu leiktíð þar sem liðið var komið í slæma stöðu í hálfleik og var í því að elta allan seinni hálfleikinn.

„Við vorum mikið í því að elta og það sem við gerðum mikið í fyrra og líka í dag er að við komum alltaf til baka, stigin sem við erum að tapa eru þrír leikir með einu marki, tveir leikir með fimm eða sex mörkum og svo erum við að tapa stigi núna. Við erum inni í öllum leikjum, en byrjunin á okkar leikjum er vesen, það er skrýtið að vera að segja það en við byrjum ekki fyrr en holan er orðin djúp. Við þurfum að drullast til að finna okkur einhverja möntru til að koma okkur strax inn í leikinn.“

„Skotnýtingin hjá okkur er ekki nógu góð og síðan eru þetta tæknifeilar þegar við erum að sækja upp völlinn, þar missum við boltann mikið og erum að falla í tæknifeilapyttinn. Dauðafærin okkar þurfa að vera aðeins skarpari,“ sagði Kári beðinn um að nefna eitt eða tvö atriði sem hafi verið sérstaklega að í leiknum.

Vörn og markvarsla liðsins var góð í þessum leik en upp á hana hefur vantað í síðustu leikjum liðsins.

„Algjörlega, það eru margar stöður á vellinum sem við erum sáttir við, þó að það komi mörk þá eru kröfur á allar stöður varnarlega á vellinum. Petar kom mjög sterkur inn síðasta korterið, það er vel, við erum að halda þeim í 23 mörkum og þar af kannski fimm úr hraðaupphlaupum, þess utan erum við að spila fína vörn.“

Það hlýtur að svíða að í liðið vantar mikið af leikmönnum sem hefðu annars spilað lykilhlutverk í liðinu, Kári tekur undir.

„Ef við ættum að setja upp fjórtán manna hóp fyrir tímabilið, þá vantar í þennan leik held ég sex, það er svolítið mikið þegar þú leggur af stað inn í tímabil. Við erum þunnskipaðir að því leyti að þeir sem eru að koma inn eru ekki með marga leiki undir belti, að sjálfsögðu er það okkur til tekna þegar fram í sækir. Við verðum þá alltaf að setja meiri kröfur á lykilmenn í liðinu og við verðum þá að standast þær væntingar.“

Um framhaldið segir Kári að liðið stefni hátt.

„Við verðum að stefna á tvo punkta gegn FH, til að losa okkur frá neðri helmingnum, þar viljum við ekki vera í jólapásunni. Við ætlum síðan að taka á því í jólapásunni og koma inn mjög sterkir í febrúar.“

Kári er ásamt Kristjáni Erni Kristjánssyni og Elliða Snæ Viðarssyni í 28-manna hópi landsliðsins sem kemur til greina í lokahóp Íslands á EM. „Nei, ég stefni alls ekki á það,“ segir Kári hlæjandi en hélt síðan áfram.

„Það er alveg opið í báða enda, við erum þrír af 28, ég veit ekki hvort það verði 19 eða 22 kallaðir til en það er mikilvægt fyrir félagið okkar að fá viðurkenningu sem þessa. Það er gaman fyrir fólk að sjá að það er alvöru starf í gangi hérna,“ sagði Kári en síðan vildi hann þakka fyrir stuðninginn frá fólkinu en hann vill að leikmenn kveiki í stúkunni en ekki öfugt.

„Við fáum alltaf góðan stuðning og við verðum að átta okkur á því að við stjórnum salnum svolítið sjálfir. Fyrri hálfleikurinn er daufur og við sjálfir daufir, þá er fólkið ekki að rífa okkur áfram, það á ekki að vera þannig. Við eigum að gefa af okkur til fólksins og það á að hrífast með okkur, ekki öfugt. Þannig að þegar við erum komnir í gang og farnir að gefa af okkur þá kemur stúkan með okkur, hún er sú besta á landinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert